Norskur barnasálfræðingur – sem komst í fréttir þegar hann missti starfsleyfi sitt í kjölfar sektargerðar fyrir að misnota hunda kynferðislega og brjóta lög um heilbrigðisstarfsfólk – varð sér úti um starf á nýjan leik án þess að norsk heilbrigðisyfirvöld fengju rönd við reist.
Í ljós kom að maðurinn hafði látið krók koma á móti því bragði yfirvalda að svipta hann leyfinu til að starfa sem sálfræðingur. Hafði hann einfaldlega haslað sér völl á lýðnetinu og gert út á Ameríkumarkað þar sem myndarlegur skjólstæðingahópur í höfuðborginni Washington DC hafði gengið honum á hönd og tekið að þiggja sálfræðiráðgjöf hans gegnum stofu þar.
Brot mannsins í Noregi áttu sér stað árin 2020 og 2023 og var það þrándheimski vefmiðillinn Nidaros sem fyrstur greindi frá þeim ásamt norska ríkisútvarpinu NRK, en svo háttaði til að lögregla handtók sálfræðinginn þar sem hann var staddur á vinnustað sínum þáverandi, St. Olavs-sjúkrahúsinu í Þrándheimi, í júní 2020 og játaði hann við yfirheyrslur að hafa misneytt sér hunda kynferðislega við þrjú tækifæri.
Meðan á rannsókn málsins stóð svipti til þess bær eftirlitsstofnun, Statens Helsetilsyn, hann starfsleyfi og kærði sálfræðingurinn þá stjórnvaldsákvörðun. Þegar árið eftir sótti hann svo um stöðu sálfræðings gegnum norsku vinnumálastofnunina NAV og fékk starfið, enda hafði hann haldið því leyndu að starfsleyfið vantaði.
Komst leynimakk hans upp vorið 2022, eftir fjóra mánuði í starfinu, þegar kærunefnd heilbrigðismála vísaði kæru hans frá og NAV barst um leið til eyrna að starfsleyfislausum sálfræðingi hefði veist staða með milligöngu stofnunarinnar. Var honum sagt upp með tafarlausri virkni.
Það var svo í fyrra sem í ljós kom að sálfræðingurinn var kominn á starfsmannaskrá kvíðamiðstöðvar í Washington, Washington Anxiety Center, og starfaði þar við að veita börnum og foreldrum þeirra sálfræðiráðgjöf. Við eftirgrennslan NRK og Nidaros kom í ljós að hvorki bandarísk heilbrigðisyfirvöld né stjórnendur kvíðamiðstöðvarinnar vissu af málum sálfræðingsins í Noregi. Lét hann af störfum þar samstundis því sem stjórnendurnir þýfguðu hann um svör.
Hefur norska heilbrigðiseftirlitið, Helsetilsynet, nú lagt fram kæru á hendur sálfræðingnum fyrir bellibrögð hans, en þegar lögreglan lagði málið niður eftir eitt símtal við sálfræðinginn kærði eftirlitið þá ákvörðun.
Þær eru því orðnar margar kærurnar í þessu tæplega fimm ára gamla máli þegar allt er talið saman. „Við vísum til alvarleika málsins og þess að NN hefur áður gengist undir sektargerð fyrir brot á lögum um heilbrigðisstarfsfólk,“ segir í kæru eftirlitsins sem NRK og Nidaros hafa undir höndum.
Varð kæran til þess að lögregla endurupptók rannsókn málsins og hafði samband við lögmann barnasálfræðingsins, Marit Lomundal Sæther sem miðlaði þeim skilaboðum að kærði væri ekki staddur í Noregi í hefði auk þess takmarkaðan áhuga á að ræða við lögregluna.
„Grunaði hefur gegnum lögmann sinn upplýst lögregluna um að hann kjósi að tjá sig ekki um kæruefnið. Það er réttur grunaða og því leggur lögregla ekki á sig þá vinnu að kanna sannleiksgildi þess að hann sé ekki staddur í Noregi,“ segir Nils Kristian Grønvik, ákæruvaldsfulltúi embættis lögreglunnar í Suður-Þrændalögum sem svo heitir enn þrátt fyrir að Þrændalög hafi verið sameinuð í eitt fylki 1. janúar 2018.
Varð þetta til þess að lögregla lagði rannsókn málsins niður öðru sinni og þar við situr, ekkert nýtt hefur að sögn Grønvik verið aðhafst af hálfu lögreglu.
Heilbrigðiseftirlitið sjálft hefur heldur enga möguleika á að láta kné fylgja kviði á nokkurn hátt, eins og talspersóna þess segir í skriflegu svari til NRK. Stofnunin hafi þegar afturkallað starfsleyfi barnasálfræðingsins sem séu þyngstu stjórnsýsluviðurlög sem hún geti beitt.
Þess má í lokin geta að ekki er daglegt brauð að Helsetilsynet kæri sálfræðinga til lögreglu. Að sögn upplýsingafulltrúa stofnunarinnar hefur það gerst í þrígang síðastliðna tvo áratugi.
NRK-II (breyttar verklagsreglur í kjölfar fréttar NRK)
NRK-III („Leyndardómar barnasálfræðingsins“ – ítarumfjöllun)