Tugir þúsunda hafa neyðst til að flýja heimili sín í Los Angeles-sýslu eftir að gróðureldar blossuðu upp að nýju í gær.
Eldurinn er kallaður Hughes-eldurinn og breiðir hann hratt úr sér. Á nokkrum klukkustundum hefur eldurinn náð að þekja yfir 3.800 hektara norðan við borgina Los Angeles.
Gróðureldarnir læstu sig í hlíðar við Castaic-vatnið, skammt frá borginni Santa Clarita, og hafa 31 þúsund íbúar á svæðinu þurft að yfirgefa heimili sín.
„Ég bið til guðs að húsið okkar brenni ekki til grunna,“ segir eldri íbúi á svæðinu er hann pakkar dótinu sínu saman og undirbýr brottför.
Íbúar í Los Angeles-sýslu eru enn að jafna sig á umfangsmiklum gróðureldum sem fyrr í mánuðinum skildu eftir sig gríðarlega eyðileggingu og sviðna jörð. Á þriðja tug fórust í þeim eldum.
Um fjögur þúsund slökkviliðsmenn hafa barist við nýju eldana með aðstoð flugvéla og jarðýtna.
„Staðan er enn viðkvæm og það hefur reynst erfitt að ráða niðurlögum eldsins. Við erum þó að ná yfirhöndinni,“ segir Anthony Marrone, slökkviliðsstjóri Los Angeles.
„Við verðum á vettvangi næturlangt til að ná meiri tökum á útbreiðslunni, ganga úr skugga um að við getum komið böndum á heitustu svæðin, og síðan verið með nægt viðbragð, þannig að ef eldur skyldi blossa upp annars staðar, getum við þá fært viðbragðið þangað.“