Uns allir deyja

Árið 2022 voru 63 manneskjur skotnar til bana í Svíþjóð, …
Árið 2022 voru 63 manneskjur skotnar til bana í Svíþjóð, sami fjöldi og situr á þingi á Íslandi. Sama ár féllu tíu manns fyrir byssukúlum samtals í Danmörku, Finnlandi og Noregi. Ljósmynd/Krimfup.se

„Manndrápum með skotvopnum hefur fjölgað margfalt í hérna Svíþjóð síðustu ár. Ef við lítum á tölfræðina síðasta áratuginn eða svo voru átta manns skotnir til bana í Svíþjóð fyrir tíu árum, en árið 2022 voru þeir 63, miklu fleiri en í Danmörku, Finnlandi og Noregi til samans þar sem tíu manns létust í kjölfar skotárása það árið.“

Þetta segir Diamant Salihu í samtali við Morgunblaðið og þar fer maður sem veit hvað hann syngur. Salihu, sem er af albönsku bergi brotinn, en flutti átta ára gamall til Borlänge í Svíþjóð, er helsti sérfræðingur sænska ríkisútvarpsins SVT í þeirri ofbeldis- og glæpaöldu sem sænska þjóðin hefur mátt sæta misserum saman og Morgunblaðið og mbl.is hafa fjallað ítarlega um.

„Ég byrjaði sextán ára gamall í blaðamennsku og skrifaði þá fyrir staðarblaðið Borlänge Tidning,“ segir Salihu af ferli sínum. Hann er ákaflega upptekinn maður og getur blaðamaður deilt því með lesendum Morgunblaðsins að hann hefur um eins árs skeið setið um að ræða við sérfræðinginn sem hefur hlotið fjölda verðlauna, ekki einvörðungu blaðamannaverðlaunin Stora journalistpriset árið 2021 heldur enn fremur hina annáluðu Gullskóflu frá Samtökum sænskra rannsóknarblaðamanna, Föreningin Grävande Journalister, en skóflutáknið kemur af því að rannsóknarblaðamennska kallast grafandi blaðamennska á Skandinavíutungum.

Diamant Salihu flutti átta ára gamall til Borlänge í Svíþjóð …
Diamant Salihu flutti átta ára gamall til Borlänge í Svíþjóð og var farinn að skrifa fyrir staðarblaðið þar sextán ára. Hann á sér aldarfjórðungs feril á sænskum fjölmiðlum, hefur skrifað tvær bækur og er sérfróður um sænsk glæpagengi. Ljósmynd/Wikipedia.org/Frankie Fouganthin

Hlaut dóm fyrir vopnalagabrot

Viðtalið sem hér birtist – og var tekið símleiðis – hófst þar sem Salihu var staddur á salerni í ráðstefnuhúsi nokkru þar sem hann sat ráðstefnu í fyrradag og var þá hádegishlé nýhafið á ráðstefnunni. Áfram var svo haldið er hann var kominn um borð í lest eftir ráðstefnuna og viðtalinu lokið þar, en þess má geta að norskir og sænskir fjölmiðlar greindu frá því í hitteðfyrra að blaðamaðurinn hefði fengið leynilegt heimilisfang vegna hótana úr sænskum undirheimum.

„Ég fór svo yfir á kvöldblaðið Expressen 2006 og var þar í ellefu ár,“ segir Salihu sem auk þess gegndi stöðu fréttaritara Expressen í stórborgunum London og New York. Ekki var lognmollunni fyrir að fara kringum blaðamanninn unga sem hóf störf á kvöldblaðinu sænska upp úr tvítugu, en árið 2012 dró til þeirra tíðinda að hann hlaut dóm fyrir vopnalagabrot í kjölfar þess að hafa keypt skotvopn sem rannsóknarblaðamaður og voru kaupin liður í umfjöllun hans um undirheimana og hve auðvelt eða torvelt væri fyrir þá sem þess óskuðu að útvega sér skotvopn.

„Þaðan fór ég svo yfir á SVT árið 2017 og núna starfa ég við rannsóknarfréttamennskuþáttinn Uppdrag granskning þar,“ heldur rannsakandinn áfram af ferli sínum, en þátturinn nýtur mikillar athygli í sem utan Svíþjóðar og fetar línur ámóta sjónvarpsþátta sem kafa djúpt í erfið mál og torséð og má nefna systurþáttinn Brennpunkt hjá norska ríkisútvarpinu NRK og vitaskuld þekkja flestir Íslendingar til Kompáss þar sem ýmislegt hefur komið upp á yfirborðið.

Fíkniefni, mansal og morð – Encrochat

Eftir Salihu liggja tvær bækur um þá styrjöld sem nú ríkir í sænskum undirheimum, Tills alla dör, Uns allir deyja, sem kom út árið 2021 og byggir á rannsóknum höfundarins á viðsjám og væringum milli glæpaklíkna á Järva-svæðinu svokallaða, Järvafältet, gömlu heræfingasvæði í Sollentuna, norðvestur af sænsku höfuðborginni Stokkhólmi, og När ingen lyssnar, Þegar enginn hlustar, þar sem rannsóknarblaðamaðurinn beinir sjónum sínum að baráttu löggæsluyfirvalda við undirheimana með dulsímakerfið Encrochat í bakgrunni. Byggir fyrirsögn viðtalsins á verkum þessum.

Uns allir deyja fjallar um væringar glæpaklíkna á Järva-svæðinu svokallaða, …
Uns allir deyja fjallar um væringar glæpaklíkna á Järva-svæðinu svokallaða, Järvafältet, gömlu heræfingasvæði í Sollentuna, skammt frá Stokkhólmi. Ljósmynd/Bokus

Gríðarstórt skref var stigið hjá evrópskum lögregluembættum þegar frönsku lögreglunni tókst að brjótast inn í Encrochat vorið 2020 þar sem 60.000 notendur skipulögðu fíkniefnaviðskipti og mansal auk þess að panta manndráp og líkamsmeiðingar eins og þeir væru að kaupa í matinn.

Fletti aðgerðin ofan af stærsta fíkniefnamáli Evrópu fyrr og síðar og voru rúmlega 6.500 manns handteknir, þar af 746 á Bretlandseyjum einum. Tine Hollevoet, upplýsingafulltrúi evrópsku löggæslustofnunarinnar Europol, sagði mbl.is frá því máli á sínum tíma.

„Ég fékk Stora journalistpriset raunar tvisvar, í síðara skiptið var það fyrir umfjöllun mína um svikahrappa sem beindu spjótum sínum að eldri borgurum í Svíþjóð og höfðu af þeim fé,“ segir Salihu við Morgunblaðið, nú staddur um borð í lest á sænska höfuðborgarsvæðinu og krydda hátalaratilkynningar, ískur, flaut og kliður hljómgæði viðtals þar sem viðtalsefnið mælir auk þess á sænsku og blaðamaður á norsku. Þetta fer allt einhvern veginn, eins og vitur maður sagði.

„Svíum hefur mistekist algjörlega“

Nú þarftu að segja mér örlítið frá þessari ofbeldisbylgju sem þið hafið glímt við í Svíþjóð og er nánast eins og styrjöld. Hvernig byrjaði þetta og hvernig stendur á því að sænska lögreglan hreinlega missti tökin á ástandinu? Þetta er ólíkt því sem við horfum upp á hér í Noregi.

„Þetta byrjaði í raun fyrir rétt rúmum áratug, árið 2013. Þá fórum við að taka eftir því hvernig notkun skotvopna tók að stigmagnast hér í landinu,“ svarar Salihu, sá sænski fjölmiðlamaður sem hve gerst hefur sökkt sér í starfshætti og umsvif stórra gengja á borð við Shottaz og hina nafntoguðu Foxtrot-klíku, veldi „kúrdíska refsins“ frá Írak, Rawa Majid, sem stjórnar her sínum frá Tyrklandi þaðan sem sænsk yfirvöld hafa engin ráð með að fá hann framseldan.

„Svíum hefur mistekist algjörlega að stöðva þetta, þennan ofbeldisspíral,“ heldur blaðamaðurinn áfram og notar sænska orðið våldsspiral um ófremdarástand sem hefur magnast með hverju árinu og kveður nú svo rammt að, að sænskir fjölmiðlar greindu frá því í hitteðfyrra að almenningur þar í landi flykktist á skyndihjálparnámskeið til að læra að stöðva blæðingar eftir skot- og stungusár.

Félagar Rinkeby-gengisins Shottaz frá Svíþjóð á útsýnispalli Ekeberg-veitingahússins í Austur-Ósló. …
Félagar Rinkeby-gengisins Shottaz frá Svíþjóð á útsýnispalli Ekeberg-veitingahússins í Austur-Ósló. Sænskir glæpamenn reyna ólmir að hasla sér völl í Noregi þar sem minna er um blóðsúthellingar. Skjáskot/NRK

Glamúrlíf eða kalt myrkur grafarinnar

„Óleyst sakamál í og umhverfis stóru borgirnar, Stokkhólm, Gautaborg og Malmö, hafa hrannast upp og ekki bætti úr skák þegar skipulagi sænsku lögreglunnar var breytt á þann veg að lögreglumenn sem höfðu staðbundna þekkingu á afbrotamálum á sínum svæðum voru færðir til með þeim afleiðingum að þessi þekking á staðnum hvarf að mestu,“ segir Salihu alvarlegur í bragði.

„Gengin hafa haft næg tækifæri til að byggja sig upp og við þurfum líka að líta á aðgreiningu innflytjenda í samfélaginu hérna í Svíþjóð. Þeir eru mikið til horfnir inn í eigin hverfi og eru á svæðum þar sem atvinna er oft af skornum skammti og þá er valið ekki flókið þegar tekjulind gegnum afbrot býðst. Þrýstingurinn á ungt fólk að leggja fyrir sig glæpi er ótrúlegur, til dæmis á samfélagsmiðlunum þar sem höfuðpaurarnir og bakmennirnir dubba þessa starfsemi upp í að vera einhvers konar draumalíf þar sem allt er í hendi,“ heldur Salihu áfram og orð hans endurspegla kirfilega margítrekaðan fréttaflutning í Skandinavíu af ungmennum sem missa fótanna á glapstigu með stjörnur í augum af innantómum loforðum um glamúrlíf sem oftar en ekki endar bak við lás og slá eða jafnvel í köldu myrkri grafarinnar.

Viðmælandinn færir sig yfir í skólakerfið og segir frá því hvernig námsárangrinum í grunnskólum hefur hrakað svo jaðrar við faraldur – auðvitað ekki síst meðal innflytjenda sem eru að fóta sig í nýju landi, þurfa að læra nýtt tungumál á mettíma til að eiga möguleika og stutt er í að hafna einfaldlega utangarðs. Er það ekki einmitt það sem gerist þegar enginn hlustar?

„Það er ekki óvarlegt að ætla að þeir sem tengist …
„Það er ekki óvarlegt að ætla að þeir sem tengist þessum hópum séu í allt um 60.000 og virkir félagar kannski 14.000,“ segir Salihu. Ljósmynd/Norli.no

„Hann er afurð sænska kerfisins“

„Hverfi innflytjenda sæta einangrun,“ segir Salihu, „lögreglan fer ekki þangað, félagsþjónustan dregur sig út þaðan, aðgengi að eiturlyfjum er ekki flókið og þá er auðvelt að reikna það sem eftir stendur af dæminu.“

Hvað með „kúrdíska refinn“, Rawa Majid, hvernig fer hann að því að byggja þetta veldi upp sem hann hefur í kringum sig? Hann var kominn til mikilla metorða þegar sem unglingur.

„Hann er afurð sænska kerfisins,“ svarar Salihu um hæl. „Hann elst hér upp og gengur hér í skóla, en á sama tíma kemur hann sér í sambönd við glæpamenn. Það sem skilur hann frá öðrum er að hann kann að byggja upp sambönd og hann fer sér hægt í fyrstu,“ heldur gengjasérfræðingurinn áfram.

„Hann byrjar á verslun með þýfi og færir sig svo yfir í fíkniefnasölu og verður mjög stórtækur þar á skömmum tíma og það er þar sem ofbeldið byrjar, þegar hann er farinn að ógna veldi annarra fíkniefnasala sem voru á undan honum. Þegar Encrochat var hakkað var fótunum kippt undan fjölda sænskra fíkniefnasala, fjögur hundruð manns voru handteknir hér í Svíþjóð og þá geturðu ímyndað þér tækifærin fyrir menn með góð sambönd sem enn flugu undir ratsjá.

Þarna byggði hann veldi sitt upp, auðgaðist, réð til sín liðsmenn og lagði grunninn að því veldi sem hann stjórnar í dag,“ segir Salihu og setur atburði um alla Evrópu í sænskt samhengi í nokkrum setningum.

Er einhver leið að slá tölu á það hve margir félagar tilheyra þessum klíkum og teljast virkir í starfsemi þeirra?

„Þarna eru auðvitað ýmsar reikniaðferðir í gangi og miðað við ólíkar forsendur, en það er ekki óvarlegt að ætla að þeir sem tengist þessum hópum séu í allt um 60.000 og virkir félagar kannski 14.000,“ svarar Salihu blákalt, fyrri talan tvöfaldur íbúafjöldi Hafnarfjarðar miðað við árið 2024 og sú síðari rúmlega Mosfellsbær.

„Ég tala við alla“

Þú hefur verið með leynilegt heimilisfang vegna hótana, hvað viltu segja mér um það?

„Jú jú, það er nú þannig með gengin að þau nota mikinn sálfræðihernað til að vekja ótta hjá fólki, að slá því fram að klíkufélagar viti hvar þú átt heima hefur ákveðin áhrif. Margir telja sér ögrað með fjölmiðlaumfjöllun og þeir vilja hafa áhrif á hvernig um þá er fjallað – þeir vilja ekki bara fá hvers konar athygli sem er. Ég tala við alla, ég er alveg tilbúinn að ræða þessi mál – en ég vil ekki að þessir menn bíði fyrir utan garðshliðið heima hjá mér,“ svarar Salihu ákveðinn og lái honum hver sem vill.

Sænska lögreglan hefur haft í mörg horn að líta undanfarin …
Sænska lögreglan hefur haft í mörg horn að líta undanfarin misseri og telur Salihu að hún hafi fyrir margt löngu misst tökin á gengjaværingunum enda hættir lögreglan sér ekki lengur inn í sum hverfi innflytjenda. Morgunblaðið/Atli Steinn Guðmundsson

Lokaspurning, hvernig telurðu að þessi mál þróist, verður þessi vargöld ykkar í Svíþjóð einhvern tímann knúin til kyrrðar?

„Yfirvöld þurfa að vera rækilega á verði til að hindra allt það sem getur orðið,“ svarar Salihu, „gengin munu halda áfram að senda „hermenn“ til Noregs og Danmerkur,“ segir hann og á við hreina leigumorðingja, oft barnunga, sem þar með fá mun vægari dóma en fullorðnir afbrotamenn vegna ungs aldurs.

„Þarna er verið að nýta unglinga í glæpsamlegum tilgangi og það er eitthvað sem mun halda áfram þangað til árvekni [löggæsluyfirvalda] nægir til að stemma stigu við þróuninni,“ segir Diamant Salihu að lokum, maður sem gegnum margra ára blaðamennskuferil hefur öðlast hve gleggsta sýn á þá óöld sem virðist orðin nær daglegt brauð í Svíþjóð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert