Nú er það tíðinda af Írum að þar í landi hefur illviðrið Jóvin valdið stórtjóni, en 725.000 fasteignir í landinu eru nú án rafmagns, tré hafa rifnað upp og fallið auk þess sem 130.000 heimili eru vatnslaus og vitað er um eitt dauðsfall af völdum stormsins eins og mbl.is hefur þegar greint frá. Féll tré ofan á bifreið í Raphoe með þeim afleiðingum.
Hefur vindhraðinn mælst allt að 50,8 metrar á sekúndu og var á tímabili óttast að spilling neysluvatns gæti þyngt íbúum rúmlega 500.000 heimila í landinu. Létu almannavarnayfirvöld því þau boð út ganga í nokkrum sýslum að íbúar þar syðu allt vatn er ætlað væri til neyslu.
Annar eins vindhraði hefur að sögn írska ríkisútvarpsins RTÉ ekki mælst á landinu í 80 ár, eða síðan í janúar 1945 þegar hann mældist sjónarmun minni, 50,5 metrar á sekúndu.
Fjöldi tilmæla um að fólk haldi sig innandyra hefur verið gefinn út svo nánast jaðrar við útgöngubann að mati einhverra fjölmiðla. Lokuðu skólar og vinnustaðir víða dyrum sínum í dag enda gengu almenningssamgöngur úr skaftinu um allt land og var mörgum torfært leiðar sinnar.
Talið er að allt að viku geti talið að koma rafmagni á sum heimili og vinnustaði, en raflínur liggja nú eins og hráviði víða og hamla umferð um vegi og gangstéttir. Frá þessu greinir írska vatnsveitan Uisce Éireann.
Hjón í Ceann Trá í Kerry greindu frá því að þau teldu sig heppin að vera enn hérna megin eftir að gaflveggur húss þeirra hrundi að hluta, og sem betur fer út á við segja þau, þar sem svefnherbergi þeirra er innan veggjarins og hefðu þau ekki þurft að kemba hærurnar hefði veggurinn hrunið inn í húsið.
Þetta var versta martröðin sem hægt er að fá,“ sögðu þau Jaro og Ingrid Fagan við RTÉ og prísuðu sig sæl.
Heiti stormsins, Éowyn, á sér keltneskar rætur, en það smíðaði rithöfundurinn J.R.R. Tolkien úr brýþonsku tungunni fornvelsku, þar sem það var Øwyn, en Tolkien hafði nafnið Éowyn um eina höfuðpersónanna í Hringadróttinssögu sinni.