Í mannskæðustu árás Ísraelsmanna í átökum þeirra við Hisbollah-skæruliðasamtökin í Líbanon á undanförnum mánuðum létust 73 manns.
Árásin var gerð 29. september þegar ísraelskum flugskeytum var skotið á sex hæða blokk í smábænum Ain El Delb, sem er í suðurhluta Líbanon.
Blokkin hrundi til grunna í árásinni.
Ísraelsher hefur hingað til sagt að blokkin hafi verið skotmark vegna þess að þar hafi verið stjórnstöð hryðjuverkamanna og að tekist hafi að drepa stjórnanda hjá Hisbollah.
Rannsókn BBC bendir hins vegar til að flestir þeirra látnu hafi verið almennir borgarar og aðeins sex íbúar hafi haft einhverja tengingu við Hisbollah. Enginn þeirra var háttsettur innan samtakanna.
Í ítarlegri umfjöllun BBC um árásina kemur fram að tekist hafi að bera kennsl á 68 af þeim 73 sem létust í árásinni. Sex þeirra höfðu tengingar við hernaðararm Hisbollah samkvæmt úttektinni, en enginn þeirra var þó háttsettur innan samtakanna.
Meðal annarra sem létust voru 14 karlmenn sem voru almennir borgarar, 19 konur sem einnig voru almennir borgarar og 23 börn.
BBC óskaði upplýsinga frá ísraelska hernum um árásirnar, meðal annars af hverju hann hefði skilgreint blokkina sem stjórnstöð hryðjuverkamanna og hvort einhver þeirra sex sem tengdust Hisbollah væri flokkaður sem stjórnandi.
Engin svör bárust við þeim fyrirspurnum en Ísraelsher sagði hins vegar að árásir á hernaðarskotmörk tækju mið af alþjóðalögum og að reynt væri að koma í veg fyrir að mannfall almennra borgara yrði óhóflega mikið miðað við hernaðarlegan ávinning af árásum.
Yfirvöld í Líbanon segja að fleiri en 3.960 manns hafi fallið í árásum Ísraels frá október 2023 til nóvember 2024 og að flestir þeirra hafi verið almennir borgarar.
Yfirvöld í Ísrael segja að á sama tíma hafi að minnsta kosti 47 almennir borgarar í Ísrael fallið í árásum Hisbollah þar sem samtökin skutu eldflaugum frá suðurhluta Líbanon. Á sama tíma hafi að minnsta kosti 80 hermenn fallið í átökum í suðurhluta Líbanon.
Vopnahlé var samþykkt í nóvember á milli Ísraels og Hisbollah þar sem sextíu daga frestur var gefinn fyrir báða málsaðila til að draga til baka hersveitir sínar. Sagðist Ísrael ætla að draga herlið sitt frá Líbanon og Hisbollah samþykkti að draga herlið sitt norður fyrir Litaní-ána.