Ísraelar hafa sleppt 200 palestínskum föngum úr haldi eftir að Hamas-samtökin létu fjóra kvenkyns hermenn lausa úr gíslingu í morgun.
Konurnar fjórar eru seinni hópur gísla sem Hamas sleppir úr haldi í samræmi við vopnahléssamning þeirra við Ísrael.
Hamas hafa nú sleppt sjö gíslum frá því að samningar náðust um vopnahlé, en alls hafa þeir fallist á að sleppa 33 gíslum í fyrsta fasa vopnahlésins. Enn eru 87 í gíslingu en þar af eru 34 taldir látnir.
Síðasta sunnudag voru 90 palestínskir fangar látnir lausir og var bróðurpartur þeirra konur sem ekki höfðu verið ákærðar. Sumir fanganna hafa verið í haldi fyrir óljósar sakir og sumir hverjir aldrei verið ákærðir fyrir glæp, hvað þá hlotið dóm.
Í dag verður föngum sleppt sem hafa hlotið þunga dóma eða verið ákærðir fyrir mun alvarlegri glæpi og verður um 70 þeirra vísað rakleiðis úr landi til nágrannalanda, þar á meðal Katar og Tyrklands.
Yngsti palestínski fanginn sem búist er við að verði látinn laus í dag er aðeins 16 ára en sá elsti er 69 ára gamall. Einn þeirra hefur setið í ísraelsku fangelsi í 39 ár en hann var fyrst handtekinn árið 1986.
Ísraelsk stjórnvöld hafa sakað Hamas um brot á samningum með því að sleppa hermönnum á undan almennum borgurum og ekki staðið við að láta konu að nafni Arbel Yehud lausa úr haldi.
Ekki liggur fyrir hvers vegna frelsun hennar hefur verið frestað en Hamas segir Yehud enn á lífi og að fyrirhugað sé að sleppa henni eftir viku.
Yfirvöld í Ísrael hafa í kjölfarið gefið út að þeir hyggist ekki hleypa íbúum Gasa yfir á norðurhluta Gasasvæðisins fyrr en ráðstafanir hafa verið gerðar til að sleppa Yehud og sannanir hafa verið veittar fyrir því að hún sé á lífi.