Líkamshlutar eiginkonunnar fundust í töskunni

Lögregla grunaði manninn um að hafa á sér ólöglegan varning …
Lögregla grunaði manninn um að hafa á sér ólöglegan varning en fundu þess í stað hluta af aflimuðum kvenmannslíkama. Ljósmynd/Colourbox

Lögreglan í Kenía hefur handtekið karlmann eftir að hafa fundið líkamshluta eiginkonu hans í tösku.

Er þetta nýjasta tilfellið um kynbundið ofbeldi í landinu, örfáum vikum eftir að hundruð kvenna voru beittar táragasi þegar þær söfnuðust saman í höfuðborginni Naíróbí til að mótmæla kvenmorðum (e. femicide) og krefjast aðgerða yfirvalda.

Morðrannsókn er hafin eftir að hinn 29 ára gamli John Kiama Wambua var handtekinn af lögreglunni í borginni eftir hefðbundið eftirlit á tösku hans.

Lögregla grunaði manninn um að hafa á sér ólöglegan varning en fundu þess í stað hluta af aflimuðum kvenmannslíkama í töskunni.

Eiginkonan er 19 ára gömul

Að sögn lögreglu lét Wambua uppgötvun lögreglunnar ekki trufla sig og viðurkenndi í yfirheyrslu að líkamshlutarnir tilheyrðu 19 ára gamalli eiginkonu hans, Joy Fridah Munani.

Wambua leiddi lögreglumenn að heimili þeirra hjóna þar sem hræðilegur vettvangur blasti við þeim, blóðugt gólf, blóðug föt og morðvopnið, sem var beittur hnífur.

Þá hafa líkamshlutar fundist undir rúmi en fleiri líkamshluta er þó enn saknað.

Kynbundið ofbeldi er reglulegt í Kenía

Í nóvember sagði fulltrúi mannréttindanefndar Kenía að hjá þeim hefðu verið skráð 97 kvenmorð á síðustu þremur mánuðum.

Mál tengd kynbundnu ofbeldi koma reglulega upp í Kenía og vara aðgerðasinnar við faraldri í þeim efnum.

Í september lést Rebecca Cheptegei frá Úganda, sem keppti í maraþonhlaupi á Ólympíuleikunum í París eftir að kærastinn hennar kveikti í henni.

Rebecca Cheptegei (í miðjunni) í maraþoninu í París.
Rebecca Cheptegei (í miðjunni) í maraþoninu í París. AFP/Kirill Kudryavtsev

Fleiri íþróttakonur hafa týnt lífi sínu við heimilisofbeldi, til að mynda Agnes Tirop og Damaris Mutua. Agnes Tirop lést eftir stungusár á kvið, aðeins 25 ára gömul.

Agnes Tirop var á meðal fremstu langhlaupara heims.
Agnes Tirop var á meðal fremstu langhlaupara heims. Ljósmynd/AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert