„Þess vildi ég óska að ég gæti ábyrgst að ekkert meira gerðist, en ég ábyrgist að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að stemma stigu við þessum atburðum,“ segir Max Åkerwall, starfandi lögreglustjóri suðurumdæmis lögreglu sænska höfuðborgarinnar Stokkhólms, í samtali við þarlenda ríkisútvarpið SVT.
Sprengjutilræði hafa verið tíð þar á höfuðborgarsvæðinu upp á síðkastið. Seint á fimmtudagskvöldið sprakk sprengja við fjölbýlishús í Farsta í Suður-Stokkhólmi og mbl.is greindi frá tveimur sprengingum aðfaranótt fimmtudags, annarri við klúbbhús vélhjólaklúbbsins Bandidos í Haninge og hinni í Uppsala.
„Við skoðum jafnan hverjir búa þar sem sprengingar verða til að átta okkur á því hvers vegna sprengt er á staðnum,“ segir lögreglustjórinn og kveður hvert sprengitilræði vera bút í púsluspil lögreglunnar í rannsóknum hennar á væringum glæpagengja í Stokkhólmi og nágrenni.
Eins og mbl.is hefur greint frá beinist fjöldi skot- og sprengjuárása að öðrum en sjálfum klíkufélögunum. Gjarnan er ráðist að ættingjum þeirra, vinum eða vinnuveitendum og má nefna sem dæmi þegar handsprengju var varpað inn í matvöruverslun í miðbæ Södertälje í júlí í fyrra.
Var atvikið talið hafa átt að skjóta liðsmanni glæpagengisins Ronnafalangen skelk í bringu en hann var þá skráður til heimilis í íbúðahluta hússins sem að hluta er atvinnuhúsnæði. Þetta hafði SVT eftir heimildarmönnum en lögregla vildi þó hvorki segja af né á um sannleiksgildi þeirrar kenningar. Helsti sérfræðingur SVT um gengjastríðin ræddi við Morgunblaðið í vikunni:
Åkerwall kveður þróunina þá að skot- og sprengjutilræði séu jafnan pöntuð og unglingar undir lögaldri, jafnvel undir sakhæfisaldri, fengnir til að vinna verkin. Sé staðan nú orðið oftar en ekki sú að bakmennirnir og höfuðpaurarnir sem panta ódæðin séu staddir erlendis og þar með utan seilingar sænskra lögregluyfirvalda.
„Þetta eru oftast unglingar sem framkvæma þetta, strákar og stelpur,“ segir lögreglustjóri og bætir því við að enginn hörgull sé á tilræðismönnum, „Unglingar standa í röðum eftir verkefnum,“ segir Åkerwall í sjónvarpsviðtali SVT sem horfa má á undir efsta hlekknum hér að neðan.