Gripnir fyrir drónaflug

Netvarnadeild norska hersins er til húsa í Kolsås-búðunum auk þess …
Netvarnadeild norska hersins er til húsa í Kolsås-búðunum auk þess sem þjóðaröryggisstofnunin norska, NSM, hefur þar eitthvað af skrifstofum sínum. Ljósmynd/Norski herinn/Anette Ask

Fimm manns eru í haldi lögreglunnar í Bærum, nágrannasveitarfélagi norsku höfuðborgarinnar Óslóar, í kjölfar þess að hafa verið staðnir að verki við drónaflug við eða á bannsvæði nú upp úr hádegi í dag.

Eru hinir handteknu pólskir að þjóðerni og teljast hafa brotið af sér með því að fljúga flygildinu fjarstýrða í nágrenni Kolsås-herstöðvarinnar í Bærum, eftir því sem lögregla greinir frá. Í búðunum er meðal annars að finna skrifstofur norsku þjóðaröryggisstofnunarinnar NSM, birgðastöð norska hersins og netvarnadeild hans.

Lögreglan beitti meðal annars þyrlu til að leita mennina uppi áður en til handtöku þeirra kom í kjölfar þess er henni barst tilkynning um drónaflugið.

Bannsvæðið við Kolsås-herbúðirnar í Bærum. Áframhaldandi dvöl fimmmenninganna í fangaklefa …
Bannsvæðið við Kolsås-herbúðirnar í Bærum. Áframhaldandi dvöl fimmmenninganna í fangaklefa stendur og fellur með því hvort þeir hafi flogið dróna sínum inn fyrir bannsvæðið. Skjáskot/Þjóðaröryggisstofnun Noregs/NSM

Ásetningur eða gáleysi?

„Við lítum málið alvarlegum augum og nú munum við leiða í ljós hvort þarna var um ásetning eða gáleysi að ræða,“ segir Christian Maximillian Lie varðstjóri í samtali við norska ríkisútvarpið NRK um málið og bætir því við að lögregla sýni nú aukna árvekni þegar hugsanlegar njósnir eru annars vegar í ljósi gangs öryggismála í álfunni.

„Rannsóknin mun leiða í ljós hvort drónanum hafi verið flogið inn fyrir bannsvæðið eður ei. Það er ástæðan fyrir því að við sleppum þeim ekki lausum fyrr en við höfum rannsakað þann þátt málsins,“ segir verðstjórinn að lokum.

NRK

Dagsavisen

Teknisk Ukeblad

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert