Elon Musk var óvæntur gestur í gegnum fjarfundarbúnað á kosningafundi þýska þjóðernisflokksins AFD í gær. Sagði hann að flokkurinn væri besta valið fyrir framtíð Þýskalands.
„Ég held að það sé of mikil áhersla lögð á sekt vegna fortíðarinnar og við þurfum að komast yfir það. Börn ættu ekki að vera dæmd sek fyrir syndir langömmu og langafa þeirra,“ sagði hann á fundinum og vísaði þar væntanlega í árin 1933-1945 þegar Nasistar stýrðu Þýskalandi.
Þátttaka Elon Musk í stjórnmálum hefur vakið blendin viðbrögð. Burtséð frá stuðningi hans við Donald Trump Bandaríkjaforseta hefur hann einnig komið af krafti inn í þjóðfélagsumræðuna í Þýskalandi og Bretlandi.
AFD er þjóðernisflokkur sem aðrir þýskir stjórnmálaflokkar hafa lengst af heitið því að starfa ekki með. Kristilegir demókratar hafa þó opnað á það að þiggja stuðning frá AFD á næsta kjörtímabili við að ná í gegn frumvörpum um útlendingamál.
AFD hefur lagt mesta áherslu á útlendingamál í aðdraganda kosninga en einnig orkumál og efnahagsmál. Sambandsþingskosningar fara fram í Þýskalandi í næsta mánuði.
Flokkurinn mælist með sögulega mikið fylgi, um 20%, sem er meira fylgi en Jafnaðarmannaflokkur Olaf Scholz Þýskalandskanslara mælist með.
Kristilegir demókratar mælast með um 30% fylgi og er talið líklegast að leiðtogi þeirra, Friedrich Merz, verði næsti Þýskalandskanslari.
„Ég held að komandi kosningar í Þýskalandi séu mjög mikilvægar,“ sagði Musk og bætti við:
„Ég held að þær gætu ráðið úrslitum um örlög Evrópu, kannski örlög heimsins.“
Musk hefur að undanförnu lýst yfir stuðningi við AFD á samfélagsmiðli sínum X og hélt til dæmis streymi í beinni útsendingu með Alice Weidel, leiðtoga AFD, fyrir tveimur vikum síðan.
Weidel sagði á fundinum í gær að hælisleitendur í Þýskalandi þyrftu að vera sendir úr landi svo að Þjóðverjar gætu búið öryggir í eigin landi.
Tugir þúsunda mótmæltu AFD í um 60 bæjum og borgum víða um Þýskaland. Mótmælin voru að mestu leyti friðsæl og fólk hélt á skiltum þar sem á stóð meðal annars:
„Út með nasista.“