Sæstrengur með ljósleiðara þvert á Eystrasaltið, milli Svíþjóðar og Lettlands, varð fyrir skemmdum snemma í morgun. Frá þessu greinir lettneska ríkisútvarpið LSM, en skemmdirnar á kaplinum eru innan sænskrar efnahagslögsögu. Tengist hann Svíþjóð gegnum sænsku eyjuna Gotland.
Tilheyrir kapallinn lettneska fjarskiptafyrirtækinu LMT og stofnuninni LSRTC sem rekur þá innviði sem nýttir eru til útsendinga ríkismiðla landsins, útvarps og sjónvarps.
Lettneski sjóherinn hefur þegar sent herskip á vettvang en auk þess eru yfirvöld landsins í sambandi við Atlantshafsbandalagið NATO sem haldið hefur úti herförum við öryggisgæslu á Eystrasalti síðan fyrr í mánuðinum eftir að fimm kaplar milli Finnlands og Eistlands voru eyðilagðir á jóladag.
Lettneski forsætisráðherrann Evika Silina boðaði til fundar ríkisstjórnar sinnar og fulltrúa viðeigandi stofnana í dag og lýsti því auk þess yfir á blaðamannafundi um málið að eftir öllum sólarmerkjum að dæma hefði einhvers konar ákoma utan frá valdið tjóninu.
„Við erum í góðu sambandi við hvort tveggja Svíþjóð og NATO og höfum farið þess á leit við strandgæsluna að hún verði innan handar við rannsókn málsins. Svíþjóð hefur heitið okkur aðstoð,“ sagði ráðherra á fundinum.
Að sögn Maris Polencs, yfirmanns lettneska sjóhersins, hefur herskip verið í viðbragðsstöðu á Eystrasalti allan sólarhringinn í ljósi þeirra skemmdarverka er þegar hafa verið unnin.
Kveður hann athygli áhafnar þess hafa beinst að skipi á leið til Rússlands sem siglir undir fána Möltu. Engar athuganir hafi þó verið gerðar á hugsanlegum skemmdum á akkeri skipsins eða grunsamlegu háttalagi áhafnar þess.
Grunur leikur á að skip úr svokölluðum skuggaflota Rússa, olíutankskipið Eagle S, hafi eyðilagt kaplana fimm á jóladag með því að draga akkeri sitt eftir hafsbotninum og rjúfa kaplana með því. Akkerið slitnaði af festi sinni og fannst við leit á hafsbotni.
Jimmie Adamsson, upplýsingafulltrúi sænska sjóhersins, staðfestir við sænska Aftonbladet að herskip NATO séu nú komin á vettvang auk þess sem flugvélar á vegum bandalagsins séu til reiðu í þeirri varðstöðu sem haldið hefur verið úti á Eystrasalti frá því skömmu eftir áramót.