Saksóknarar í Svíþjóð segja að búlgarska flutningaskipið Vezhen sé grunað um skemmdarverk í Eystrasaltinu en sænskir rannsakendur eru nú um borð í skipinu sem liggur við akkeri skammt frá Karlskrona í Svíþjóð.
Eins og greint hefur verið frá þá veitti sænska landhelgisgæslan skipinu eftirför eftir að ljósleiðari, sem liggur í hafinu á milli Svíþjóðar og Lettlands, skemmdist.
Lettar sendu herskip á vettvang í gær til að meta tjónið og sænsk yfirvöld hafa hafið rannsókn.
Undanfarna mánuði hafa þjóðir við Eystrasaltið unnið að því að efla varnir sínar í kjölfar meintra skemmdarverka á sæstrengjum, sem margir telja að Rússar beri ábyrgð á.
Í gær hafði sænska strandgæslan afskipti af búlgarska flutningaskipinu og fyrirskipaði því að sigla inn í sænska landhelgi á meðan málið er til rannsóknar.
Alexander Kalchev, forstjóri skipafélagsins Navigation Maritime Bulgare (Navibulgar), sem á skipið, neitar sök.
Myndir af Vezhen hafa verið birtar sem virðast sýna skemmdir á akkeri skipsins sem siglir undir fána Möltu. Það var að flytja áburð frá Ust-Luga í Rússlandi áleiðis til Suður-Ameríku. Kalchev segir að skipið hafi lent í fárviðri á laugardag.
Frumrannsókn í gær leiddi í ljós skemmdir á akkeri skipsins og að ljóst sé að það hafi verið látið niður. Kalchev segir alveg mögulegt að akkerið hafi dregist eftir botninum, en það var síðan dregið aftur upp.
Sænska leyniþjónustan, Sapo, fer með rannsókn málsins en nýtur aðstoðar ákæruvaldsins og strandgæslunnar.
Navibulgar er stærsta skipafyrirtæki Búlgaríu. Forstjórinn segir að búið sé að ráða lögmann sem gætir hagsmuna skipsins og áhafnarinnar meðan á rannsókn stendur yfir.
Skipið var smíðað árið 2022 og eru skipverjar alls 17 talsins: átta búlgarskir ríkisborgarar og níu frá Mjanmar.
Skemmdirnar á ljósleiðaranum urðu á sænsku yfirráðasvæði á um 50 metra dýpi. Strengurinn er í eigu ríkisútvarps Lettlands, en talsmenn þess segja að það hafi orðið truflanir á útsendingum þeirra.
Evika Silina, forsætisráðherra Lettands, segir að Lettar aðstoði sænsk yfirvöld við rannsókn málsins.
Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, staðfesti í gær að hann hefði átt samtal við Silinu og bætti við að Atlantshafsbandalagið (NATO) fylgist einnig með gangi mála.
Stjórnmálamenn og sérfræðingar hafa sakað Rússa um að skipuleggja fjölþáttaárásir gegn Vesturveldunum vegna stríðsátakanna í Úkraínu.
Talsmenn NATO greindu frá því fyrr í þessum mánuði að bandlagið muni hefja sérstakt eftirlit í Eystrasaltinu, en NATO mun bæði senda skip og flugvélar á svæðið. Markmiðið er að koma í veg fyrir frekari skemmdarverk á sæstrengjum og öðrum mikilvægum innviðum.