Enginn meðbyr hjá Breivik – aðstæður við afplánun lögmætar

Breivik mætir í réttarsalinn í janúar í fyrra þar sem …
Breivik mætir í réttarsalinn í janúar í fyrra þar sem hann var vitni í sínu eigin máli gegn ríkinu. Héraðsdómur og lögmannsréttur telja aðstæður hans í fangelsinu ekki brot gegn ákvæðum mannréttindasáttmála. Breivik vill áfrýja, en mun Hæstiréttur taka við málinu? AFP/Cornelius Poppe

Lög­manns­rétt­ur Borg­arþings í Nor­egi staðfesti í gær ein­um rómi dóm Héraðsdóms Ósló­ar frá 15. fe­brú­ar í fyrra sem þá sýknaði norska ríkið af öll­um kröf­um fjölda­morðingj­ans And­ers Behrings Brei­viks sem taldi sig afplána við ómannúðleg­ar aðstæður með vís­an til mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu.

Sagði Øystein Storrvik lögmaður Brei­viks norska rík­is­út­varp­inu NRK í gær að skjól­stæðing­ur hans vildi áfrýja niður­stöðu gær­dags­ins til Hæsta­rétt­ar sem er háð því að rétt­ur­inn samþykki að taka málið til meðferðar.

Byggði sak­sókn Brei­viks og Storrviks á því að rúm­lega þrett­án ára seta Brei­viks í al­gjörri ein­angr­un bryti gegn þeim grein­um mann­rétt­inda­sátt­mál­ans sem mæla fyr­ir um aðstæður fanga við afplán­un.

Of hættu­leg­ur til heim­sókna

Allt frá því Brei­vik hlaut sinn dóm sum­arið 2012 hef­ur hann setið í klef­um innst á fang­els­is­göng­um án mögu­leika á um­gengni við aðra fanga. Hann sat fyrsta ára­tug­inn í Telemark-fang­elsi, en var flutt­ur yfir í Rin­gerike-fang­elsi árið 2022.

Í nú­ver­andi aðstöðu sinni í Rin­gerike hef­ur Brei­vik aðgang að æf­inga­her­bergi, vinnu­her­bergi, svefn­her­bergi og heim­sókna­rými þar sem enn frem­ur er sjón­varp.

Um ára­bil naut Brei­vik heim­sókna úr röðum annarra fanga, en nú orðið þykir hann of háska­leg­ur til að um­gang­ast aðra í fang­els­inu auk þess sem tald­ar eru lík­ur á því að aðrir fang­ar geti verið hon­um hættu­leg­ir, enda hef­ur norsk þjóð varla haft ann­an eins ímugust á nokkr­um landa sín­um síðan landráðamaður­inn Vidk­un Quisl­ing var og hét, í síðari heims­styrj­öld­inni. Var Quisl­ing stillt upp fyr­ir fram­an af­töku­sveit við Akers­hus-kast­ala í Ósló í októ­ber 1945 og endaði þar líf sitt.

Mál­flutn­ings­menn dóms­málaráðuneyt­is­ins, fyr­ir hönd norska rík­is­ins, í máli Brei­viks nú voru þau Kri­stof­fer Nerland og Carol­ine Røkenes sem segja í skrif­legri yf­ir­lýs­ingu til NRK að af Brei­vik stafi enn hætta og séu þær ströngu ör­yggis­kröf­ur, er um hann gilda, lög­mæt­ar og byggðar á út­tekt­um fag­fólks.

NRK

VG

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert