Farþegaflugvél með 64 innanborðs og herþyrla rákust saman í loftinu nálægt Reagan-flugvellinum í Washington í Bandaríkjunum í nótt að íslenskum tíma og brotlentu vélarnar báðar í Potomac-ánni. Enginn hefur fundist á lífi enn sem komið er.
Flugvélin, sem er af gerðinni Bombarider CRJ700, var á leið til lendingar á Reagan-flugvellinum þegar áreksturinn varð klukkan 21 að staðartíma og að sögn talsmanna American Airlines-flugfélagsins voru 60 farþegar um borð og fjórir í áhöfn. Að sögn NBC brotnaði farþegavélin í tvennt og þá fannst herþyrlan á hvolfi í Potomac-ánni.
Flugvélin var á leið frá Wichita í Kansas en í herþyrlunni, sem var í æfingaflugi, voru þrír bandarískir hermenn um borð. Flugvellinum var lokað í kjölfar flugslyssins en tugir viðbragðsaðila voru sendir á vettvang. Fjölmiðlar greina frá því að 19 flugvélar hafi verið á lofti nálægt Reagan-flugvellinum þegar vélarnar rákust saman.
Kafarar og bátar leita fólks í ánni sem er ísköld og til þessa hefur enginn fundist á lífi, en að sögn fjölmiðla hafa 18 lík fundist í ánni.
Slökkviliðsstjórinn í Washington sagði á fréttamannafundi að um 300 björgunaraðilar væru við störf við mjög erfiðar aðstæður og gæfi lítið til kynna að þeir ættu von á að finna einhvern á lífi.
Donald Trump forseti Bandaríkjanna segist hafa verið upplýstur um flugslysið og hrósaði hann viðbragðsaðilum fyrir frábært starf. Trump gagnrýnir viðbrögð starfsmanna í flugturninum í aðdraganda árekstrar vélanna í færslu á samfélagsmiðli sínum, Truth Social.
„Af hverju gaf flugturninn þyrlunni ekki fyrirmæli í stað þess að spyrja hvort áhöfn þyrlunnar sæi flugvélina? Þetta er slæmt ástand sem hefði átt að koma í veg fyrir,“ segir Trump.
Fréttin hefur verið uppfærð
The airplane was on a perfect and routine line of approach to the airport. The helicopter was going straight at the airplane for an extended period of time. It is a CLEAR NIGHT, the lights on the plane were blazing, why didn’t the helicopter go up or down, or turn. Why didn’t the…
— Donald J. Trump Posts From His Truth Social (@TrumpDailyPosts) January 30, 2025
#BREAKING at 1048 pm Eastern: NBC Washington's Mark Segraves, citing two sources, said the crash scene on the Potomac is closer toward the shore of Joint Base Anacostia-Bolling and the American Airlines plane "split in two and is in about 7 feet of water...[T]he helicopter is… pic.twitter.com/rBZ8m7I0hQ
— Curtis Houck (@CurtisHouck) January 30, 2025