Lögreglan í Skotlandi hefur fundið tvö lík skammt frá þeim stað þar sem ungversku systurnar Eliza og Henrietta Huszt sáust síðast í Aberdeen.
BBC greinir frá.
Ekkert hefur spurst til systranna síðan þær sáust á gangi við ána Dee í borginni Aberdeen klukkan tvö að morgni þann 7. janúar.
Lögregla segir annað líkið hafa fundist eftir að það sást í ánni um klukkan átta á föstudagsmorgunn og hitt um klukkan níu á föstudagskvöld.
Að sögn lögreglu hafa ekki enn verið borin kennsl á líkin en fjölskylda systranna hefur verið látin vita.
Bróðir systranna hefur greint frá að hafa verið hissa er hann heyrði að þær hefðu tilkynnt leigusala sínum að þær væru að flytja út. Þær höfðu ekki minnst á það við fjölskyldu sína, þó þær hefðu verið að safna sér fyrir eigin íbúð.
Lögregla segir rannsókn standa yfir en að engar vísbendingar hafi enn komið fram um að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað.