Stjórnvöld í Kanada hyggjast leita réttar síns hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) í kjölfar þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti setti 25% toll á innfluttar vörur frá Kanada.
„Kanadísk stjórnvöld líta greinilega svo á að þessir tollar séu brot á viðskiptaskuldbindingum sem Bandaríkin hafa gengist undir,“ sagði kanadískur embættismaður við AFP undir nafnleynd.
Vísaði hann til samninga Kanada og Bandaríkjamanna í gegnum WTO og CUSMA-samninginn sem Bandaríkin, Kanada og Mexíkó undirrituðu árið 2018, þegar Trump var síðast forseti.
„Við munum augljóslega beita okkur fyrir þeim lagalegu úrræðum sem við teljum okkur hafa með samningum sem við deilum með Bandaríkjunum,“ sagði hann.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, hefur tilkynnt að Kanada muni svara Bandaríkjamönnum í sömu mynt með því að setja 25% toll á ýmsar vörur frá Bandaríkjunum.
Embættismaðurinn sagði að vörurnar sem Kanadamenn ætli að tollleggja séu framleiddar á svæðum í Bandaríkjunum hvar ýmsir áhrifamenn í kringum Trump eru kjörnir fulltrúar.
Þannig verði hægt að auka þrýstinginn á Trump. Embættismaðurinn hafnaði því þó að það væri aðeins verið að tollleggja vörur frá ríkjum undir stjórn repúblikana.
Ekki er útilokað að Kanadamenn auki tollheimtuna enn frekar á næstu vikum.
„Von okkar er sú að þær aðgerðir sem við höfum þegar gripið til muni nægja til að sannfæra Bandaríkin um að þau hafi farið ranga leið og að þau muni leita til okkar til að vinna með okkur að því að koma okkur aftur í eðlilegra horf,“ sagði embættismaður.