Karlar á bótum fremja flesta glæpi – dreifing útborgunardaga rædd

Sollurinn í Álaborg á Norður-Jótlandi er hin alræmda Jomfru Ane-gata …
Sollurinn í Álaborg á Norður-Jótlandi er hin alræmda Jomfru Ane-gata og kveðst dyravörður þar hafa þurft að sitja ofan á fólki í 40 mínútur um mánaðamót á meðan beðið er eftir lögreglu. Ljósmynd/Wikipedia.org/Dr. Jost Hindersmanna

Fjórðungur allra nauðgunarmála í Danmörku kemur upp fyrstu þrjá dagana eftir launaútborgun, sem flestir Danir fá um mánaðamót, auk þess sem sprengja verður í líkamsáráum sem svo rammt kveður að, að daginn eftir útborgun – talið frá miðnætti – fjölgar kærum vegna líkamsárása um 77 prósent miðað við daginn áður.

Frá þessari tölfræði – og þeirri að karlar á bótum standi á bak við flest útborgunarafbrotin – greinir samfélagstölfræðirýnirinn Rockwool Fonden, en það er danska ríkisútvarpið DR sem fjallar um þá umræðu sem nú stendur um málið og hugsanlegar leiðir til úrbóta.

Þessi mikla fjölgun kærumála nær hvort tveggja til minni háttar sem stórfelldra líkamsárása auk nauðgana sem fyrr segir.

„Greining okkar táknar að þarna er tenging við aukið skemmtanalíf,“ segir Mikkel Mertz, rannsakandi Rockwool Fonden á sviði vinnumarkaðar og afbrota, í samtali við þáttinn Morgen á P1-útvarpsstöð DR. „Fjöldi fólks í vímu sveimar um næturlífið sem veldur fjölda samstuða,“ segir rannsakandinn enn fremur og byggir á rannsóknargögnum frá árabilinu 2003 til 2018.

Hin alræmda Jomfru Ane-gata

Martin Bossen kannast vel við þetta. Í 37 ár hefur hann starfað við dyravörslu á skemmtistöðum hinnar alræmdu Jomfru Ane-götu í Álaborg á Jótlandi – hjarta næturlífsins þar í borg. „Sem dyravörður býr maður sig undir útborgunardaginn,“ segir Bossen við DR, „það er munur á því hvort 6.000 manns eru í götunni eftir mánaðamót eða 3.500 fyrir þau.“

Segir hann augljóst að lögreglan eigi annríkt að kvöldi útborgunardags og næstu daga. „Við höfum setið ofan á fólki í 40 mínútur áður en lögreglan kemur hingað. Hún biðst afsökunar þúsund sinnum og segist hafa haft nóg að gera annars staðar,“ segir Bossen enn fremur.

Mertz hjá Rockwool Fonden bendir á að afbrotaaldan eftir útborgunardag sé vandamál fleiri en fórnarlambanna. „Fórnarlömbin greiða hæsta gjaldið, en störf lögreglu eru einnig hér undir,“ bendir hann á og nefnir sem dæmi að aðrir flokkar afbrota verði oft út undan hjá lögreglu dagana sem hún er að stilla til friðar í næturlífinu. Til dæmis upplýsist færri auðgunarbrot á borð við innbrot sem framin eru þetta tímabil.

Dreifing launagreiðslna dragi úr fjöldanum

„Og allt það áfengi og þau fíkniefni sem neytt er í tengslum við skemmtanalífið hefur í för með sér að fleiri leggjast inn á sjúkrahús – og það sama er afleiðing ofbeldisins. Þar eykst álagið á heilbrigðiskerfið,“ segir hann.

Kynnir Mertz því næst hugmynd sem DR skrifar í umfjöllun sinni að margir muni reka upp stór augu yfir og getur mbl.is tekið undir.

Mertz leggur til að útborgunardögum verði dreift þannig að auk mánaðamóta greiðist laun út fimmta eða tíunda dag mánaðarins. Kveður hann slíkt fyrirkomulag munu draga úr þeim mannfjölda sem heldur út á galeiðuna sama kvöldið.

„Færra fólk úti á lífinu gæti hugsanlega lækkað afbrotatíðnina,“ segir hann og bendir enn fremur á að útborgunarafbrotin nái yfir nánast alla hópa þjóðfélagsins og séu þar með lýðfræðilega mjög dreifð þótt stærstan hluta brotanna fremji þeir hópar sem mest komi við sögu lögreglunnar.

„Þeir sem þiggja opinberar bætur standa á bak við 25 prósent af þessari fjölgun [afbrota um mánaðamót] og eru að langmestu leyti karlmenn,“ klikkir Mertz út.

DR

Din Avis

Rannsókn Rockwool Fonden

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert