Nemendur við Risbergska-háskólann í Örebro eru harmi slegnir yfir fréttum dagsins en karlmaður gerði skotárás á skólann í dag sem kostaði að minnsta kosti tíu manns lífið.
Sænska dagblaðið Aftonbladet ræddi við nokkra nemendur við skólann í dag.
Einn nemandi kveðst hafa verið sekúndubroti frá því að hafa verið skotinn í árásinni en hann tók upp myndskeið af árásarmanninum þar sem hann gekk um ganga skólans vopnaður skotvopnum. Myndbandið má sjá hér.
Annar nemandi útskýrir að hann hafi verið heppinn að hafa heyrt skothvellina í byggingunni til að koma sér út í tæka tíð. Hann útskýrir að hann hafi mætt í skólann fyrr en vanalega og að hann hafi setið fyrir utan kennslustofuna sína þegar hann heyrði skothvelli í byggingunni.
„Fyrst hélt ég að einhver hefði misst stól eða eitthvað en svo heyrði ég fleiri skothvelli og þá gerði ég mér grein fyrir að þetta væri skotárás. Ég hljóp að hurðinni til að komast út og ég veit ekki hvað hefði gerst ef ég hefði ekki tekið úr mér AirPods-in,“ segir hann.
Nemandinn útskýrir að á leiðinni út hafi hann séð skotmanninn bersýnilega þegar hann var á leiðinni út.
„Skólinn er stór og það höfðu ekki allir áttað sig á því að það væri skotárás í gangi. Ég sá konu sem stóð á milli mín og árásarmannsins, hún er inni í byggingunni og ég reyni að öskra á hana. Svo hleyp ég áfram og heyri skothvelli.“