Árásarmaðurinn í Svíþjóð talinn hafa svipt sig lífi

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, og kona hans Birgitta votta hér …
Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, og kona hans Birgitta votta hér virðingu sína fyrir utan skólann þar sem árásin átti sér stað. AFP

Árás­armaður­inn sem skaut tíu manns til bana í skóla í borg­inni Öre­bro í Svíþjóð í gær lést vegna skotsárs af eig­in völd­um að sögn lög­reglu­yf­ir­valda í Svíþjóð.

Lög­reglu­yf­ir­völd hafa ekki enn greint frá því hver árás­armaður­inn var. Maður­inn var lát­inn þegar lög­reglu­menn komust til hans en hann er sagður ekki hafa kom­ist í kast við lög­in áður.

Lög­reglu­stjór­inn í Öre­bro seg­ist hvorki geta tjáð sig um árás­ar­mann­inn né um fórn­ar­lömb árás­ar­inn­ar.

Tveir á gjör­gæslu

Sex manns eru enn á spít­ala þar sem gert er að sár­um þeirra vegna árás­ar­inn­ar. Fimm þeirra þurftu að gang­ast und­ir aðgerð og tveir eru á gjör­gæslu. Ulf Kristers­son, for­sæt­is­ráðherra Svía, seg­ir árás­ina þá verstu í sögu þjóðar­inn­ar. 

Árás­ir í skól­um eru afar fátíðar í Svíþjóð. Skotárás­ir sem og sprengju­árás­ir hafa verið al­geng­ar í land­inu í tengsl­um við glæpa­gengi en tug­ir manna lát­ast vegna slíkra árása í Svíþjóð á ári hverju.

Eins og áður sagði hafa yf­ir­völd í Svíþjóð ekk­ert viljað tjá sig um það hver árás­armaður­inn var.

TV4 sjón­varps­stöðin í Svíþjóð hef­ur þó haldið því fram að maður­inn hafi verið 35 ára og at­vinnu­laus, sem hafi fjar­lægst fjöl­skyldu sína og vini sein­ustu miss­eri.

Sann­kölluð þjóðarsorg er í Svíþjóð en sænski fán­inn var dreg­inn í hálfa stöng í dag við all­ar bygg­ing­ar á veg­um kon­ungs­fjöl­skyld­unn­ar sem og hins op­in­bera vegna árás­ar­inn­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert