Rússar og Úkraínumenn hafa staðfest að ríkin hafi skipst á 300 stríðsföngum. Ríkin skiptast reglulega á stríðsföngum og eru slík samskipti nær einu dæmin um það að ríkin vinni saman eftir að stríðið hófst.
Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, tjáði sig um þá 150 Úkraínumenn sem voru frelsaðir og eru nú á heimleið. Fangarnir hafi sumir hverjir verið í haldi Rússa í meira en tvö ár.
Selenskí minntist þó ekkert á það að 150 Rússar hefðu verið frelsaðir í skiptum við Úkraínumennina. Rússneska varnarmálaráðuneytið staðfesti það þó síðar. Rússarnir sem voru frelsaðir eru nú í læknisskoðun hjá bandamönnum Rússa í Belarús áður en að þeir snúa aftur til síns heima.
Bæði Rússar og Úkraínumenn segja að Sameinuðu arabísku furstadæmin hafi miðlað málum í samningum vegna fangaskiptanna. Sameinuðu arabísku furstadæmin hafa oft miðlað málum í samningaviðræðum þjóðanna.