Trump vill að Ísraelar afhendi Bandaríkjunum Gasa

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ítrekað tillögu sína um að Bandaríkin taki yfir og endurbyggi Gasasvæðið í Palestínu. Vill hann að Ísrael afhendi Bandaríkjunum Gasasvæðið að stríði loknu.

Þetta segir Bandaríkjaforsetinn í færslu á miðli sínum Truth Social.

Engin þörf fyrir hermenn

Þar tekur hann einnig fram að engin þörf væri fyrir að senda bandaríska hermenn á svæðið. Bandaríkin myndu vinna með þróunarteymum í að endurbyggja svæðið. Þá muni ríkja stöðugleiki á svæðinu.

Trump segir að þegar Bandaríkin taki við svæðinu verði Palestínumenn þegar búnir að koma sér fyrir í „miklu öruggari og fallegri samfélögum, með nýjum og nútímalegum heimilum,“ sem Trump segir að muni vera á nærliggjandi svæðum en hann hefur talað fyrir því að flytja Palestínumenn til Egyptalands og Jórdaníu.

Tillaga Trumps um að Bandaríkin taki yfir Gasasvæðið kom fyrst fram á þriðjudag eftir að forsetinn fundaði með Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels.

Hún hefur verið harðlega gagnrýnd af leiðtogum víða um heim þ.á.m. Volker Turk, mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna og Mahmud Abbas, forseta Palestínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert