Undirbúa „sjálfviljuga“ brottflutninga Palestínumanna

Ísraelsher hefur fengið tilskipun um að undirbúa brottfluttninga Palestínumanna frá …
Ísraelsher hefur fengið tilskipun um að undirbúa brottfluttninga Palestínumanna frá Gasasvæðinu. AFP

Varnarmálaráðherra Ísraels hefur gefið út tilskipanir til ísraelska hersins um að búa sig undir „sjálfviljuga“ brottflutninga Palestínumanna frá Gasa.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur útilokað að Bandaríkin sendi hersveitir á svæðið til þess að aðstoða við flutningana þrátt fyrir að hugmyndin hafi raunar verið hans.

Trump lagði nýverið til að Palestínumenn yrðu fluttir burt frá Gasasvæðinu, enda væri svæðið orðið gereyðilagt eftir 15 mánuði af átökum.

„Ég hef tilskipað IDF (hernum) að undirbúa áætlun til að gera íbúum Gasa kleift að fara sjálfviljugir á brott,“ sagði Israel Katz varnarmálaráðherra Ísraels og bætti við að þeir gætu farið „til hvaða lands sem væri reiðubúið til þess að taka við þeim.“

Israel Katz varnarmálaráðherra Ísraels.
Israel Katz varnarmálaráðherra Ísraels. AFP/Ahmad Gharabli

„Franska Rivíera Mið-Austurlandanna

Bandaríkjaforsetinn tilkynnti um hugmyndina á blaðamannafundi að loknum fundi sínum með Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels í Hvíta húsinu og mátti heyra nokkra viðstadda taka andköf við tilkynninguna.

Trump sagði að „allir elski“ áætlunina og að hún myndi fela í sér að Bandaríkin tækju yfir Gasa, en veitti ekki frekari upplýsingar um hvernig hann hygðist fjarlægja nærri tvær milljónir Palestínumanna.

Sagði hann uppbyggingarmöguleika á svæðinu ótalmarga enda stæði lítið eftir. Gasasvæðið gæti jafnvel orðið „Franska Rivíera Mið-Austurlandanna.“

Vakti tillaga hans mikið uppnám hjá leiðtogum á Miðausturlöndum. Sameinuðu þjóðirnar hafa varað við því að hvers kyns þvingaðir brottflutningar Palestínumanna jafngildi þjóðernishreinsun.

Trump segir uppbyggingarmöguleika á Gasa ótalmarga enda sé allt í …
Trump segir uppbyggingarmöguleika á Gasa ótalmarga enda sé allt í rúst eftir átökin.Gasasvæðið gæti jafnvel orðið „Franska Rivíera Mið-Austurlandanna.“ AFP/Andrew Caballero-Reynolds

Rubio reyndi að draga í land

Marco Rubio, utanríkisráðherra Trump, dró fullyrðingar Trump nokkuð í land og sagði að allir brottflutningar á íbúum Gasa yrðu tímabundnir. Trump ítrekaði aftur á móti fyrirætlanir sínar í dag, þvert á orð Rubio.

„Gasasvæðið yrði afhent Bandaríkjunum af Ísrael að loknum átökunum,“ sagði hann á samfélagsmiðli sínum Truth Social.

„Það þarf enga hermenn frá Bandaríkjunum til! Stöðugleiki á svæðinu myndi verða ríkjandi!!!“

Talsmaður Hamas-samtakanna hefur fordæmt áform Trump og segir þau viljayfirlýsingu um hernám.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert