Dómstóll setur lögbann á niðurskurðardeild Musks

Á þremur mánuðum safnaði America PAC um 74,95 milljónum dollara …
Á þremur mánuðum safnaði America PAC um 74,95 milljónum dollara til stuðnings Trump. Elon Musk stofnaði félagið. AFP

Alríkisdómstóll í Bandaríkjunum hefur tímabundið afturkallað heimild niðurskurðardeildar sem stýrð er af auðjöfrinum Elon Musk um að fá aðgang að fjárhagsgögnum úr fjársýslu ríkisins.

Áður hafði Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fyrirskipað að Musk og teymi hans ættu að fá aðgang að gögnunum í því skyni að spara ríkisfé.

Um er að ræða tímabundið lögbann þar til málið verður formlega tekið fyrir þann 14. febrúar.

Samhliða fyrirskipaði dómarinn Musk og teymi hans að eyða öllum afritum af þeim skjölum sem þeir höfðu komist í áður en úrskurðurinn féll fyrr í dag. Teymið fékk aðgang að gögnunum í gær.

19 manna hópur saksóknara ólíkra ríkja í Bandaríkjunum stóð að baki lögsókn á hendur ákvörðun Trumps um að veita Musk aðgang að gögnunum.

Voru þeirra helstu rök þau að niðurskurðardeild Musks væri ekki formlegur hluti af stjórnsýslu ríkisins og ætti því samkvæmt alríkislögum ekki að fá aðgang að gögnunum.

Donald Trump hefur ekki tjáð sig um niðurstöðuna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert