„Pabbi, ert þetta þú?“

Vígamenn Hamas fylgdu gíslinum Ohad Ben Ami áður en hann …
Vígamenn Hamas fylgdu gíslinum Ohad Ben Ami áður en hann var leystur úr haldi. AFP

Gleðitár féllu þegar Ísraelsmaðurinn Ohad Ben Ami var leystur úr haldi Hamas-liða í dag. Var hann einn þriggja karlmanna sem fangaðir voru af Hamas-liðum þann 7. október 2023 sem leystur var úr haldi í dag í fangaskiptum.

Á sama tíma var 183 Palestínumönnum sleppt úr haldi Ísraelsmanna í fangaskiptum.

„Pabbi, ert þetta þú? Ég trúi ekki að þú sért hér.“ sagði ein þriggja dætra Ben Ami þegar faðir hennar var í öruggri höfn í faðmi fjölskyldunnar í Tel Aviv.

Vannærður 

Í samtali við fréttamenn sagði Ami að hann hefði litla hugmynd um hvað hefði gerst frá því hryðjuverkaárásin var gerð árið 2023. Var hann handsamaður ásamt eiginkonu sinni en henni var sleppt um viku eftir árásina þegar skammvinnt vopnahlé varð í átökunum.

Eftir læknisskoðun var Ami sagður vannærður í vist sinni og sagður hafa misst mikla líkamsþyngd þegar hann var í haldi. Hins vegar virtist hann við ágæta heilsu að öðru leyti.

Netanyahu enn vígreifur 

Lausn Ami er hluti af fimmtu fangaskiptum Ísraelsmanna og Hamas-samtakanna.

Benjamin Netanyahu lýsti ánægju sinni með fangaskiptin en áréttaði jafnframt að hann myndi ekki hætta fyrr en hann væri búinn að ganga á milli bols og höfuðs Hamas-samtakanna og frelsa þá gísla sem eftir væru í haldi þeirra. 73 af 251 gísl sem teknir voru af Hamas samtökunum eru enn sagðir í haldi.

Af þeim 183 Palestínumönnum sem leystir voru úr haldi Ísraelsmanna voru sjö sagðir þurfa á læknisþjónustu að halda vegna illrar meðferðar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert