„Það var blóðlykt“

Svanfríður Birgisdóttir er einn af skólastjórum Campus Risbergska-skólans í Örebro …
Svanfríður Birgisdóttir er einn af skólastjórum Campus Risbergska-skólans í Örebro í Svíþjóð. Samsett mynd

„Ég fékk að vita það í dag að einn af kennurunum mínum var meðal þeirra sem voru myrtir.“

Þetta segir Svanfríður Birgisdóttir, einn af skólastjórum Campus Risbergska-skólans í Örebro í Svíþjóð, þar sem ellefu létu lífið í skotárás á þriðjudaginn. Sjálf þurfti hún að flýja skólann á hlaupum.

Hún segir þá þrjá daga sem hafi liðið frá árásinni vera meira eins og þrjú ár í huga sér. Sjö konur, þrír karlmenn auk árásarmannsins eru meðal þeirra látnu að sögn Svanfríðar. Hún segir yngsta fórnarlambið hafa verið 28 ára og hið elsta 68 ára.

„Ein þeirra var 32 ára gömul kona og fjögurra barna móðir. Þetta er ólýsanlegt,“ segir Svanfríður og bætir við að flestir nemendur skólans séu fjölskyldufólk og því margar fjölskyldur sem upplifa skrítna tíma núna.

Skelfilegar frásagnir

Hún segir sig og hina skólastjórana hafa unnið baki brotnu síðustu sólarhringana við að hlúa að nemendum og starfsfólki og hlýða á skelfilegar frásagnir þeirra af atburðarásinni og skipuleggja þrif á skólanum sem sé talsvert laskaður.

Sjálf hafi þau ekki einu sinni haft tök á að sækja sér áfallahjálp enn sem komið er – enda séu þetta fordæmalausar aðstæður. Þó standi til að skólastjórnendur sæki áfallahjálp í framhaldinu.

„Við erum fórnarlömb og samtímis að taka á móti starfsfólkinu okkar og gera allt sem þarf að gera.“

Hún kveðst gríðarlega stolt af sínu starfsfólki sem öll hafi brugðist hárrétt við. Þau hafi fylgt þeirri þjálfun sem þau hafi hlotið og ýmist birgt sig inni eða rýmt bygginguna, eftir því hvað þau mátu öruggast.

Minningarlundurinn fyrir franan skólann.
Minningarlundurinn fyrir franan skólann. AFP

Sagt að sitja kyrrum þegar tekið var í hurðarhúninn

„Þetta hefur bjargað ég veit ekki hversu mörgum mannslífum. Það er rosalegt að heyra þessar sögur. Nemendur eru að stíga fram og segja frá viðbrögðum kennara og segja: Þetta bjargaði lífum okkar.“

Þjálfunin kveði á um að þeir sem birgi sig inni í kennslu- eða skrifstofurýmum haldi algerlega kyrru fyrir, taki hljóð af símum og öðrum tækjum og láti sem þau séu ekki til.

Það eigi einnig við jafnvel þótt einhver knýi á dyr og biðji um að komast inn enda engin leið að vita hvort árásarmaðurinn sé þar á ferð.

„Það er það sem er svo skelfilegt. Fólk hefur séð einhvern taka í handfangið,“ segir Svanfríður og klökknar. 

„Þau voru með 112 í símanum og sögðu: „Við verðum að opna“ og þeim var sagt að sitja kyrrum.“

Var sagt að loka augunum

Hún segir marga þeirra sem til hennar hafi komið í kjölfar árásarinnar hafa talað um þá skelfilegu sjón sem blasti við eftir að sérsveitir komu og fylgdu fólki út, eftir að hafa gengið úr skugga um að ekki væru árásarmenn á meðal þeirra.

Fólki hafi verið sagt að skýla augum sínum en margir hafi ekki komist hjá því að sjá lík þeirra sem lágu fyrir utan dyr kennslustofunnar.

„Fólk talar um lyktina. Það var blóðlykt.“

Hún segir erfitt að deila lýsingunum og kveðst sjálf rétt vera byrjuð að vinna sig í gegnum þessa erfiðu reynslu. Hún telji engu að síður mikilvægt að ræða hvað skeði og þær afleiðingar sem voðaverk veiks einstaklings hafi haft í för með sér.

„Við verðum að vera hreinskilin og tala um afleiðingarnar af svona hryllilegum gjörðum. Við megum ekki halda að þetta sé einhver bíómynd eða tölvuspil.“

Lögreglumenn í Riberska-háskólanum í Örebro á þriðjudag.
Lögreglumenn í Riberska-háskólanum í Örebro á þriðjudag. AFP

Einfari sem var einangraður í eigin bilun

Kveðst Svanfríður vilja ræða árásarmanninn sem minnst, helst vilji hún aldrei hugsa um hann framar þó að hún skilji af hverju fólk vilji leita útskýringa á því hvers vegna harmleikur sem þessi eigi sér stað. 

„En fyrir mér er hann ekki til.“

Hún geti þó deilt því að árásarmaðurinn hafi verið nemandi hennar árið 2021. Um hafi verið að ræða einstakling með mikla lærdómsörðugleika sem hafi engum prófum náð í framhaldsskóla. Augljóst sé að þarna hafi verið á ferð alvarlega veikur einstaklingur sem ekki hafi liðið vel

„Hann var einfari, með enga menntun, enga vinnu og ekkert félagslíf,“ segir Svanfríður og bætir við að atvikið sé skýr áfellisdómur á samfélag sem leyfi fólki að einangrast í eigin bilun.

„Við verðum að fara að taka okkur á hvað varðar andlega heilsu. Við getum ekki leyft fólki að fara undir radarinn í samfélaginu sem við lifum í. Það er lífshættulegt.

Kertaljós, blóm og falleg minningarbréf skipta þúsundum fyrir utan skólann …
Kertaljós, blóm og falleg minningarbréf skipta þúsundum fyrir utan skólann að sögn Svanfríðar. AFP

Verðum að einblína á fórnarlömbin

Segist Svanfríður aftur á móti ekki vilja dvelja við það heldur vilji hún einblína á fórnarlömb árásarinnar og þau sem komust af á lífi.

„Það á að skrifa um nemendurna, það á að skrifa um kennarana, það á að skrifa um fjölskyldurnar.“

Þeim beri að hrósa fyrir þá hetjudáð sem þau hafi unnið og þá seiglu, styrk og viðbrögð sem þau hafi sýnt í þessum hörmulegu aðstæðum.

„Hryllingurinn sem þau hafa gengið í gegnum og samt standa þau eftir og hlúa hvort að öðru,“ segir Svanfríður.

„Það er ofboðslega fallegur minningarlundur fyrir utan skólann og kertaljós, blóm og falleg minningarbréf skipta þúsundum. Fólk kemur til að minnast. Ég fór þangað sjálf í gær og það var eiginlega í fyrsta sinn sem ég gat grátið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert