Vottar Jehóva í Noregi krefja ríkið til þrautar um styrkina

Hluti af lögfræðiteymi Votta Jehóva í Noregi í sal Héraðsdóms …
Hluti af lögfræðiteymi Votta Jehóva í Noregi í sal Héraðsdóms Óslóar í janúar í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Áfrýjunarmál trúfélagsins Votta Jehóva gegn norska ríkinu hóf göngu sína fyrir Lögmannsrétti Borgarþings í þessari viku og gert ráð fyrir að meðferð þess standi þar fram á föstudag eftir viku.

„Synjun um ríkisstyrk til trúfélags getur ekki byggst á því að félagið fylgi ekki þeirri háttsemi sem norska ríkið telur æskilega, svo lengi sem háttsemin felist í iðkun eigin trúarlegrar sannfæringar,“ segir Anders Ryssdal við norska fjölmiðilinn Vårt Land.

Ryssdal er einn margra lögmanna Votta Jehóva í málinu, sem trúfélagið höfðaði upphaflega gegn norska ríkinu í kjölfar þess er fylkismaðurinn í Ósló og Viken, sem þá hét, svipti trúfélagið styrk sínum úr ríkissjóði og skráningu þess sem trúfélags árið 2022.

Sýknaði Héraðsdómur Óslóar norska ríkið af kröfum félagsins 4. mars í fyrra, en Vottar Jehóva kröfðust þess að ríkissjóði yrði gert að greiða trú­fé­lag­inu rík­is­styrki vegna ár­anna 2021 til 2023 auk vaxta, alls 51 millj­ón norskra króna, jafn­v­irði 672 millj­óna ís­lenskra króna, en norsk yf­ir­völd sviptu trú­fé­lagið styrkj­um sín­um í janú­ar 2022 í kjöl­far þess er norska rík­is­út­varpið NRK af­hjúpaði út­skúf­un og úti­lok­un inn­an trú­fé­lags­ins í þáttaröðinni Guds ut­valde, eða Guðs út­völdu.

Héraðsdómur Óslóar sýknaði norska ríkið af öllum kröfum Votta Jehóva …
Héraðsdómur Óslóar sýknaði norska ríkið af öllum kröfum Votta Jehóva í byrjun mars í fyrra. Trúfélagið áfrýjaði. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Alvarleg meingerð gegn réttindum

„Með regl­um sín­um og fram­kvæmd á út­skúf­un hvetja Vott­ar Jehóva til þess að þeir fé­lags­menn séu sniðgengn­ir sem vísað er úr fé­lag­inu eða draga sig út úr því með þeim af­leiðing­um að þeir, með fáum und­an­tekn­ing­um, sæta sam­fé­lags­legri ein­angr­un frá þeim sem áfram eru í fé­lag­inu. Fellst dóm­ur­inn á það með rík­inu að fram­kvæmd þessa fel­ur í sér al­var­lega mein­gerð gegn rétt­ind­um og frelsi annarra sem er grund­völl­ur þess að neita [fé­lag­inu] um rík­is­styrk og skrán­ingu sem trú­fé­lag,“ sagði í dómsorði héraðsdóms.

Var Vott­um Jehóva gert að greiða 1.140.505 krón­ur í máls­kostnað, jafn­v­irði tæp­lega fimmtán millj­óna ís­lenskra króna.

Í málflutningi lögmanna trúfélagsins kom fram að norska ríkið legði í meg­in­at­riðum áherslu á eig­in túlk­un trú­ar­legra texta og gætu trú­ar­leg spurs­mál, svo sem afstaða trú­fé­lags­ins gagn­vart brott­vísuðum og þeim sem hætt­ir eru, ekki verið próf­steinn fyr­ir yf­ir­völd­um og dóm­stól­um.

Blaðamanni hótað málssókn

Eins væri ekki sannað að neins kon­ar „skaðleg“ fram­kvæmd hefði átt sér stað með út­skúf­un barna úr trú­fé­lag­inu eða sams kon­ar fram­kvæmd sem brjóti á rétti fé­laga til að segja sig úr fé­lag­inu af fús­um og frjáls­um vilja. Hver fé­lagi fyr­ir sig ákvæði sjálf­ur, út frá biblíu­leg­um sjón­ar­miðum, hvaða af­stöðu hann tæki gagn­vart út­skúfuðum og þeim sem hætt hefðu.

Í tengslum við réttarhöldin ræddi Eydís Mary Jónsdóttir, sem gekk út úr Vottum Jehóva, við Morgunblaðið í janúar í fyrra, en hún sat aðalmeðferðina fyrir héraðsdómi. Vakti viðtalið hörð viðbrögð Skandinavíuskrifstofu Votta Jehóva í Danmörku og var þeim blaðamanni sem hér skrifar hótað málssókn í kjölfar þess.

Aðsend grein talsmanns Votta Jehóva í Skandinavíu, Jørgens Pedersens, birtist …
Aðsend grein talsmanns Votta Jehóva í Skandinavíu, Jørgens Pedersens, birtist í Morgunblaðinu í mars 2023. Skjáskot/Morgunblaðið

Hér að neðan má lesa bút úr viðtalinu, en Eydís og Malín Brand, báðar fyrrverandi sóknarbörn Votta Jehóva á Íslandi, eru komnar til Óslóar til að fylgjast með réttarhöldunum fyrir lögmannsrétti og munu ræða við mbl.is á næstu dögum.

Ætluðu að lifa harmageddon af

„Mamma var vott­ur þegar ég var lít­il,“ held­ur Ey­dís áfram. „Hún skildi við pabba sem var samt alltaf á hliðarlín­unni í fé­lag­inu. Hann fór á sam­kom­ur og hélt ekki jól og allt það en tók aldrei skrefið til fulls. Þau skildu þegar ég var sex ára og eins og þessu var stillt upp fyr­ir mér þegar ég var sex ára var mamma far­in út úr söfnuðinum og ég nátt­úru­lega bara trúði því að hún væri að fara að deyja í harma­geddon [heimsendi sam­kvæmt kenn­ing­um Votta Jehóva] sem ég trúði að kæmi fyr­ir árið 2000,“ seg­ir hún frá.

„Þetta var sett upp þannig fyr­ir okk­ur systkin­un­um að pabbi lofaði því að hjálpa okk­ur að lifa af harma­geddon ef við veld­um hann við skilnaðinn. Þannig að við öll systkin­in velj­um í raun að búa hjá pabba al­gjör­lega ótengt öllu öðru en að við ætluðum að lifa af harma­geddon þannig að okk­ar sam­band við móður okk­ar var að mörgu leyti eyðilagt með þessu. Bróðir minn til dæm­is bauð mömmu ekki í brúðkaupið sitt,“ seg­ir Ey­dís sem kveðst í fram­hald­inu hafa al­ist upp að mestu inn­an safnaðar­ins.

Eydís og móðir hennar, Fjóla Sigurðardóttir, sem yfirgaf Votta Jehóva …
Eydís og móðir hennar, Fjóla Sigurðardóttir, sem yfirgaf Votta Jehóva á sínum tíma en gætti þess að sýna fullkomið hlutleysi gagnvart veru dóttur sinnar í trúfélaginu. Sá dagur rann þó að Eydís sá sæng sína upp reidda. Ljósmynd/Aðsend

„Pabbi drakk mikið og ég fékk nóg af því þegar ég var fimmtán ára og ákvað að flytja heim til mömmu – sem ég hafði verið í mjög tak­mörkuðu sam­bandi við fram að því – þar sem ég fékk næði til að vera ég,“ rifjar Ey­dís upp. Móðir henn­ar tjáði sig ekk­ert um trú­fé­lagið við dótt­ur sína, hvorki já­kvætt né nei­kvætt, en ók henni á sam­kom­ur og leyfði henni al­gjör­lega að ráða ferðinni.

Hefurðu sætt aðkasti síðan þú hættir í félaginu?

„Af því að ég skírðist ekki má fólk í fé­lag­inu nálg­ast mig og tala við mig, en sam­bandið er alltaf tak­markað. Ég hef aldrei upp­lifað eðli­legt sam­band við þá ætt­ingja sem eru hluti af söfnuðinum. En það er bara vegna þess að ég var ekki skírð. Þau trúa því nátt­úru­lega að ég og mín fjöl­skylda muni deyja von bráðar í harma­geddon þannig að það er kannski lógískt, í þeirra aug­um, að setja ekki mikla orku í það að byggja upp sam­band við mig, fyr­ir utan það hversu „slæm­ur fé­lags­skap­ur“ ég er þar sem ég er ekki vott­ur. Í Vott­un­um er ekki ung­barna­skírn, börn eru skírð mun síðar, ég held að meðal­ald­ur­inn sé 14-15 ára,“ út­skýr­ir Ey­dís og enn frem­ur að for­eldr­arn­ir taki ekki ákvörðun um skírn­ina, börn­in svari spurn­ing­um og í kjöl­farið ákveði öld­ung­arn­ir hvort þau séu til­bú­in eður ei.

Óskírðir litn­ir horn­auga

Hafi barn ekki hlotið skírn fimmtán ára gam­alt sé al­gengt að jafn­aldr­ar þess í söfnuðinum líti það horn­auga, ýti því jafn­vel til hliðar og haldi vissri fjar­lægð. „Ég ólst upp í þessu og fyr­ir mér var þetta eðli­legt, ég hafði eng­an sam­an­b­urð. En núna er elsta barnið mitt tví­tugt og ég hef alið mín börn upp – og sjálfa mig í raun upp á nýtt – og þá kannski átt­ar maður sig á því hve sterkt og mót­andi þetta nei­kvæða fé­lags­lega taum­hald er og hversu al­var­leg­ar af­leiðing­ar það hef­ur,“ seg­ir Ey­dís frá.

„Salur ríkisins“, húsnæði Votta Jehóva í Larvik í Noregi. Trúfélagið …
„Salur ríkisins“, húsnæði Votta Jehóva í Larvik í Noregi. Trúfélagið hefur verið svipt ríkisstyrkjum þar í landi vegna útskúfunar sóknarbarna sinna og grófra ásetningsbrota gegn lögum um trúfélög. Rannsóknarblaðamennskuþátturinn Brennpunkt á vegum NRK sýndi árið 2021 þáttaröðina Guðs útvöldu þar sem farið var ofan í málefni nokkurra trúfélaga og hóf persónuvernd Noregs, Datatilsynet, í kjölfarið rannsókn á Vottum Jehóva og upplýsingasöfnun félagsins um kynhegðun þegna sinna. Ljósmynd/Wikipedia.org/Stenhaug

Hún ólst upp á Ak­ur­eyri en var síðar á Reyðarf­irði og í Fella­bæ. „Á Reyðarf­irði var ég bara eina stelp­an sem var vott­ur, fyr­ir utan mig voru það bara systkini mín og ein­hver yngri börn. Ég man bara eft­ir þess­ari til­finn­ingu að vera mikið ein. Ég mátti ekki fara á bekkjar­kvöld, ég mátti ekki fara á árs­hátíðir og ég tók ekki þátt í íþrótt­um eft­ir skóla, en ég held að ég sé búin að banka á dyrn­ar á hverju ein­asta húsi á Aust­ur­landi byggðu fyr­ir 1994,“ seg­ir Ey­dís af ár­un­um fyr­ir aust­an.

Hver voru rök­in fyr­ir þeim regl­um – að mega ekki sækja skemmt­an­ir með fólki utan trú­fé­lags­ins?

„Vott­arn­ir sjá sig ekki sem hluta af heim­in­um. Þeir trúa því að heim­ur­inn – sem er allt fyr­ir utan trú­fé­lagið – sé á valdi hins vonda og þar séu bara satan og ill­ir and­ar að reyna að ná þér frá Jehóva og beiti öllu sem þeir geta. Þeir gangi bara um eins og öskr­andi ljón, leit­andi að þeim sem þeir geti gleypt. Svona var mér kennt að horfa á fólk utan safnaðar­ins. Þess vegna þurfi maður að passa sig á kenn­ur­um og líka öðrum börn­um, að þau séu ekki að taka hug þinn frá Jehóva,“ seg­ir Ey­dís og held­ur áfram – því málið er enn flókn­ara.

„Það skipt­ir líka máli hvernig þú eyðir tím­an­um þínum. Eyðirðu hon­um í að gera eitt­hvað fyr­ir Jehóva eða ertu bara að gera eitt­hvað sem er bara gam­an en gæti komið í veg fyr­ir að þú kom­ist í gegn­um harma­geddon? Þetta er alltaf þessi hræðsla. Jehóva veit líka hvað þú hugs­ar. Hann sér ekki bara hvað þú ger­ir held­ur hvað þú hugs­ar svo þú þarft að passa að hugsa ekki vond­ar hugs­an­ir. Þá deyrðu bara í harma­geddon,“ seg­ir Ey­dís.

NRK

Vårt Land (læst áskriftargrein)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka