Stjórnvöld í Rússlandi hvorki staðfesta né neita að Donald Trump Bandaríkjaforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti hafi átt í beinum samskiptum í sambandi við stríðið í Úkraínu.
Trump hefur margsinnis sagst ætla að binda enda á stríðsátökin en minna hefur farið fyrir því hvernig hann hyggst ná því fram.
New York Post hafði eftir Trump að hann hefði talað við Pútín símleiðis. Þá gaf hann jafnframt í skyn að hann hefði talað við Pútín oftar en einu sinni.
Dmitrí Peskov, talsmaður Rússlandsstjórnar, hafði áður staðfastlega neitað því að samskiptin hefðu átt sér stað. Hins vegar var annað hljóð komið í strokkinn í gær þar sem hann hvorki játaði né neitaði fyrir samskiptin.