Palestínumenn myndu ekki geta snúið til baka

Donald Trump Bandaríkjaforseti á Ofurskálinni í gær.
Donald Trump Bandaríkjaforseti á Ofurskálinni í gær. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti virðist útiloka þann möguleika að Palestínumenn muni geta snúið aftur á Gasasvæðið fari svo að Bandaríkin taki yfir svæðið og hefji þar uppbyggingu.

Þetta kemur fram í viðtali sem miðillinn Fox News mun birta í kvöld en viðtalið var tekið fyrir Ofurskálina í gær. Þar tjáði Trump sig enn frekar um tillöguna sem hann bar á góma fyrir tæpri viku síðan við litlar undirtektir alþjóðasamfélagsins.

Væru komnir í betra húsnæði

Aðspurður hvort Palestínumenn myndu hafa rétt til þess að snúa aftur á Gasasvæðið færi svo að Bandaríkin tækju yfir svæðið segir Trump ekki svo vera.

„Af því að þeir væru komnir í miklu betra húsnæði,“ segir Trump í viðtalinu.

Segist hann vilja koma upp varanlegu svæði fyrir Palestínumenn sem sé ekki á Gasasvæðinu en forsetinn nefnir að einhver ár séu í það að þar verði hægt að lifa eðlilegu lífi á ný vegna þeirra skemmda sem hafa orðið.

Nefnir ekki nákvæma staðsetningu 

Trump hefur talað fyrir því að flytja Palestínubúa frá Gasa yfir til Egyptalands og Jórdaníu, einnig við litlar undirtektir. Í viðtalinu segist hann vilja byggja upp falleg samfélög fyrir Palestínubúa á Gasa sem telja nú yfir tvær milljónir.

Segir forsetinn að allt frá tvö til sex „örugg samfélög“ geti mögulega verið reist, „örlítið í burtu“ frá því þar sem Palestínubúarnir eru núna, en nefnir hann þó ekki nákvæma staðsetningu.

„Í millitíðinni myndi ég eiga þetta. Hugsaðu um þetta eins og fasteignaþróun fyrir framtíðina. Þetta yrði ótrúlega fallegt land,“ segir Trump en tekur jafnframt fram að miklum fjárhæðum yrði ekki eytt í þetta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert