Fundu nær fjórðung tonns af hassi

Fíkniefnaleitarhundurinn My, sem er orðin níu ára gömul, fann hassið …
Fíkniefnaleitarhundurinn My, sem er orðin níu ára gömul, fann hassið í bifreiðinni eftir að tollverðir höfðu komið auga á eitthvað sem krafðist nánari skoðunar við gegnumlýsingu bifreiðarinnar. Ljósmynd/Norska tollgæslan

„Það er ekki daglegt brauð að við leggjum hald á svo mikið magn af hassi. Sending af þessari stærðargráðu krefst sterkrar fjármögnunar og mikils skipulags.“

Þetta skrifar norski ríkistollstjórinn Øystein Børmer í fréttatilkynningu um 230 kílógrömm af hassi sem norskir tollverðir fundu í vörubifreið á landamærastöðinni við Svínasund, þar sem E6-brautin liggur milli Noregs og Svíþjóðar.

Kom málið upp í september, tollgæslan greindi hins vegar ekki opinberlega frá því fyrr en í gær vegna rannsóknarhagsmuna, en það var fíkniefnaleitarhundurinn My sem átti hlut að máli við að afhjúpa efnið við tollskoðun.

Tæp 900 kg af hassi í fyrra

Kvaðst ökumaður bifreiðarinnar við eftirgrennslan tollvarða einungis vera að flytja matvöru til Noregs, nokkuð sem Børmer tollstjóri kveður alvanalegt. Við gegnumlýsingu með þar til gerðum röntgenbúnaði komu tollverðir auga á farm sem þeim þótti ástæða til að kanna nánar og kom þá til kasta My og hins næma þefskyns hennar.

Tæplega fjórðungur tonns af hassi leyndist í bifreiðinni er öll …
Tæplega fjórðungur tonns af hassi leyndist í bifreiðinni er öll kurl voru komin til grafar. Ljósmynd/Norska tollgæslan

Gaf dýrið til kynna með háttalagi sínu að fíkniefni væri að finna á ákveðnum stað í farmrými bifreiðarinnar og leið ekki á löngu uns tollverðir höfðu fundið efnið – nær fjórðung tonns af hassi.

„Enn einu sinni sannaðist að gegnumlýsingartækni og fíkniefnaleitarhundur er árangursrík aðferðafræði til að koma í veg fyrir að stórar fíkniefnasendingar komi inn í landið,“ skrifar ríkistollstjóri í fréttatilkynningu sinni, en árið 2024 lögðu norskir tollverðir samtals hald á tæplega 900 kílógrömm af hassi sem tollgæslan reiknar sem um 900.000 neysluskammta með smásöluverðmæti um 23 milljónir norskra króna, andvirði 291 milljónar íslenskra króna.

Fjórir voru handteknir vegna málsins í september og hafa allir stöðu grunaðra í málinu. Þeir hafa setið í gæsluvarðhaldi síðan.

NRK

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert