Gætu hafið stórstyrjöld innan fimm ára

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, í Kreml í síðustu viku.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, í Kreml í síðustu viku. AFP/Kristina Kormilitsyna

Leyniþjónusta danska hersins, Forsvarets Efterretningstjeneste, FE, telur að Rússar gætu hervæðst og hafið stórstyrjöld í Evrópu innan fimm ára, fari svo að Úkraínustríðinu ljúki eða bardagar þar stöðvist.

Svo segir í nýju hættumati FE, en þar kemur fram að hernaðarógn frá Rússlandi muni aukast á næstu árum.

Fari svo að innrásarstríði Rússa í Úkraínu ljúki eða hlé verði gert á bardögum stríðandi fylkinga þar og ef Atlantshafsbandalagið (NATO) vopnast ekki á ný gætu Rússar látið til skara skríða á næstu fimm árum að sögn FE.

Í mati leyniþjónustunnar segir þó að ekki sé nein yfirvofandi hætta á þessum tímapunkti á árás á Danmörku af hernaðarlegum toga.

Snúist í uppbyggingu fyrir stríð gegn NATO

FE segir að Rússar hafi samhliða stríðinu í Úkraínu hrint af stað mikilli enduruppbyggingu og umbótum á hersveitum sínum.

Er talið að á síðasta ári hafi sú enduruppbygging þróast frá því að snúast fyrst og fremst um endurreisn í að snúast um aukna hernaðaruppbyggingu með það að markmiði að geta barist í stríði gegn NATO.

„Rússum hefur þegar tekist að uppfæra getu sína til að nútímavæða útbúnað hersins og auka hergagnaframleiðslu sína verulega. Þeir geta nú þegar losað um fjármagn til endurvígvæðingar gegn NATO, ekki síst vegna utanaðkomandi fjárhagslegs og efnislegs stuðnings,“ segir í áhættumatinu.

Þrjár sviðsmyndir

Ef stríðið í Úkraínu stöðvast eða hlé verður gert á geta Rússar losað þaðan herafla sinn, og þar með aukið hernaðarlega getu sína til að ógna bandalagsríkjum NATO beint. Þá segir leyniþjónustan að hún geri ráð fyrir eftirfarandi:

  • Eftir um sex mánuði gætu Rússar barist í staðbundnu stríði í landi sem á landamæri að Rússlandi.
  • Eftir um tvö ár gætu Rússar ógnað NATO-ríki eða -ríkjum með trúverðugum hætti og vera búnir undir svæðisbundið stríð gegn mörgum löndum á Eystrasaltssvæðinu.
  • Eftir um fimm ár gætu Rússar verið búnir undir stórstyrjöld á meginlandi Evrópu, án aðkomu Bandaríkjamanna.

Tímaramminn miðast við að Atlantshafsbandalagið vopnist ekki á sama hraða og Rússar á sama tíma.

Vilja ekki bjóða Bandaríkjamönnum birginn

Spennan milli Bandaríkjanna, Kína og Rússlands hefur breiðst til norðurslóða að mati leyniþjónustunnar. Í dag er Rússland stærsta herveldið á norðurslóðum og telur leyniþjónustan að Vladimír Pútín Rússlandsforseti hafi engan áhuga á að missa þann titil.

Rússar vilji yfirráð yfir hafsvæðum norður af meginlandi sínu og hugsanlegt sé að þeir vilji yfirráð alla leið upp að norðurpólnum. Leyniþjónustan bendir á að sjávarútvegsstefna Rússlands frá árinu 2022 geri ráð fyrir því að vel sé hugsanlegt að Rússar muni beita öllum ráðum til að verja hagsmuni sína norður af landinu, þar með talið hervaldi.

Hættumatið víkur að stöðu Grænlands og Færeyja en í því sambandi segir leyniþjónustan að Rússar horfi á löndin tvö í norður-amerísku samhengi en ekki evrópsku og því sé ekki víst að þeir muni blanda smáríkjunum tveimur inn í deilur í Evrópu.

Rússar geti vel hugsað sér að bjóða nokkrum Evrópuþjóðum upp í hernaðarlegan dans samtímis en séu ekki sérlega viljugir að dansa við Bandaríkjamenn enda hefði það mun meiri afleiðingar.

Rússar og fjölþáttaógnir

Í hættumati sínu ræðir leyniþjónustan um fjölþáttaógnir og tíða beitingu Rússa þar um. Segir í matinu að Rússar hafi aukinn vilja til að taka áhættu þegar kemur að fjölþáttaógnum gegn NATO-ríkjum þar sem þeir telji ekki líklegt að árás á eitt ríki verði skilgreind sem árás á þau öll í skilningi 5. greinar Atlantshafssáttmálans.

Rússar muni því notast við njósnir, skemmdarverk á köplum og innviðum, skuggaflota og allt þar á milli. Þessar aðferðir geti þeir einnig notað á norðurslóðum.

„Þetta gæti falið í sér að fljúga mjög nálægt vestrænum herskipum, líkja eftir árás á eða skjóta nálægt vestrænum skipum og flugvélum,“ segir í matinu.

Slík valdbeiting gæti einnig að mati FE átt sér stað á svæðum sem Rússland hefur enga lögsögu yfir samkvæmt alþjóðalögum.

„Ef Rússar fá aukið tækifæri til að fjármagna sig eða koma sér upp meiri hernaðarlegum auðlindum til að vopna sig á norðurslóðum er líklegt að þeir haldi áfram og mögulega víkki út sinni ógnandi hegðun.“

DR

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert