Háttsettur embættismaður í úkraínsku leyniþjónustunni SBU hefur verið handtekinn vegna gruns um njósnir fyrir Rússland.
Í yfirlýsingu leyniþjónustunnar er maðurinn ekki nefndur á nafn, en hann sagður hafa stýrt miðstöð ríkisins gegn hryðjuverkum.
Úkraínskir miðlar greina þó frá nafni hans, samkvæmt heimildum innan úr leyniþjónustunni, og segja að um sé að ræða ofurstann Dmítró Kosjúra.
Er hann sýndur í handjárnum ásamt Vasil Maljúk, yfirmanni leyniþjónustunnar.
Í yfirlýsingunni segir að Kosjúra, sem lýst er sem „rottu“, hafi að minnsta kosti 14 sinnum safnað saman og sent út gögn til Rússlands, að því er BBC greinir frá.