Innkalla tíu milljónir eggja

Prior er eitt helsta vörumerki Nortura og undir það falla …
Prior er eitt helsta vörumerki Nortura og undir það falla egg framleiðandans sem áður hét Gilde og það merki notar Nortura enn á fjölda kjötvara. Ljósmynd/Nortura

Norðmenn búa sig nú undir hörgul á eggjum í verslunum landsins, þar sem hillur hafa víða tæmst nú þegar, í kjölfar innköllunar tíu milljóna eggja, 670 tonna í heildina, vegna alvarlegra mistaka hjá framleiðanda hænsnafóðurs fyrir eggjaframleiðendurna Nortura og Coop.

Innihélt fóðrið allt of mikið D-vítamín sem skilaði sér áfram í eggin sem fyrir vikið innihalda svo há gildi vítamínsins að reynst getur skaðlegt mönnum.

Hafi neytendur keypt egg frá téðum framleiðendum áður en innköllunin var gerð heyrumkunn og hent umbúðunum gefur Nortura það upp að beri sjálf eggin stimpilinn NO1265 geti áhyggjufullur eigendur þeirra haft samband við þjónustuver þessa stærsta sláturhúss Noregs sem enn fremur er, ásamt Orkla, stærsti matvælaframleiðandi landsins.

„Eggskandalen“ kallar á aflífun þúsunda hæna

„Við eigum egg núna, en er fram líða stundir gæti orðið erfitt að verða sér úti um þau,“ segir Tom Fossheim, kaupmaður í REMA 1000 Seljestad í Harstad í Troms-fylki, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Vegna „eggskandalen“, sem að minnsta kosti þrír norskir fjölmiðlar hafa kallað ástandið, þarf að aflífa mörg þúsund hænur og segja aðrir eggjaframleiðendur – en þeir eru fjölmargir í Noregi – að fólk hafi töluvert samband til að spyrja spurninga.

„Ég finn fyrir því að margir eru með böggum hildar og velta því hreinlega fyrir sér hvort öruggt sé að borða eggin okkar,“ segir Ragnar Røyset, eggjabóndi í Hareid í Mæri og Raumsdal, við NRK og bætir því við að hans egg séu jafn holl og góð og þau hafi ávallt verið.

Einnig lofar hann kerfi matvælamerkinga og innköllunarferla í Noregi sem virki þegar á hólminn sé komið og kalla þurfi inn matvæli á borð við egg. „Ég helt að fæstir átti sig á því hve gott eftirlit við höfum með matnum okkar í Noregi,“ segir bóndinn.

NRK

VG

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert