Jörðin gleypti bílinn

Gröfur og aðrar vinnuvélar sjást hér á vettvangi í borginni.
Gröfur og aðrar vinnuvélar sjást hér á vettvangi í borginni. AFP

Stýrishús flutningabíls sem hvarf ofan í jörðina í Japan í lok janúar hefur fundist í holræsakerfi. Talið er að lík bílstjórans, sem hefur verið saknað, sé þar að finna.

Talsmaður slökkviliðsins í borginni Yashio greindi frá þessu í dag.

Björgunarsveitarmenn hafa unnið að því að reyna að finna bílstjórann sem var 74 ára gamall. Bifreiðin hvarf sjónum manna þegar jörðin gaf sig óvænt með fyrrgreindum afleiðingum. Atvikið átti sér stað á gatnamótum í borginni á háannatíma 28. janúar.

Tomonori Nakazawa, talsmaður slökkviliðsins, segir að dróni hafi verið sendur niður til að mynda bílinn sem fannst. Hann segir enn fremur að það sé ekki hægt að útiloka að lík hafi einnig sést inni í bílnum.

Fjölmennt lið viðbragðsaðila hefur verið á vettvangi.
Fjölmennt lið viðbragðsaðila hefur verið á vettvangi. AFP

Geta ekki farið ofan í holuna vegna mengunar og vatnselgs

Hann segir enn fremur að björgunarsveitarmenn hafi ekki getað farið niður vegna brennisteinsvetnismengunar auk þess sem gríðarmikill vatnsflaumur var í ræsinu.

Ríkisstjórinn í Saitama-héraði, Motohiro Ono, segir að það muni taka um það bil þrjá mánuði að smíða tímabundna hjáleið til að draga úr vatnselgnum.

Holan sem opnaðist í veginum er gríðarstór.
Holan sem opnaðist í veginum er gríðarstór. AFP

Íbúar beðnir um að fækka sturtuferðum

Búið er að leggja 30 metra langa brekku sem verður nýtt til að koma þungum björgunarbúnaði ofan í holuna. Þá hafa íbúar borgarinnar, sem eru 1,2 milljónir talsins, verið beðnir um að draga úr sturtuferðum og þvotti til að draga úr vatnsmagninu sem flæðir um ræsið, sem hefur tafið aðgerðir á vettvangi.

Aðgerðum hefur verið frestað tímabundið þar sem rigning og vatn, sem fannst undir brekkunni, geta skapað hættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert