Bandaríski kennarinn Marc Fogel, sem setið hefur í fangelsi í Rússlandi í þrjú og hálft ár, var í gær leystur úr haldi og er kominn til Bandaríkjanna.
Fogel, sem er 63 ára gamall, var handtekinn á flugvellinum í Moskvu í ágúst 2021 með 17 grömm af kannabis í farteskinu en því hafði verið ávísað af lækni í Pennsylvaníu. Hann var dæmdur í 14 ára fangelsi fyrir fíkniefnasmygl.
Bandarísk og og rússnesk stjórnvöld náðu samkomulagi um lausn Fogels og tók Donald Trump Bandaríkjaforseti á móti honum í Hvíta húsinu í Washington í gær. Trump sagði að samkomulagið um lausn Fogels hefði verið sanngjarnt. Hann sagði fréttamönnum að annar fangi yrði látinn laus í dag en gaf ekki upp nafn hans.
„Mér líður eins og heppnasta manni í heimi og ég er í draumaheimi,“ sagði Fogel og kallaði Trump hetju.
„Trump tryggði Marc lausn á örfáum vikum og sóaði engum tíma í að grípa til afgerandi aðgerða til að koma honum heim,“ segir í yfirlýsingu lögfræðiteymis Fogels.