Trump hringdi í Selenskí: Þakklátur fyrir áhugann

Donald Trump hringdi í Volodimír Selenskí í dag.
Donald Trump hringdi í Volodimír Selenskí í dag. AFP/Attila Kisbenedek & Charly Triballeu

Volodimír Selenskí forseti Úkraínu segist hafa átt innihaldsríkt samtal við Donald Trump Bandaríkjaforseta, sem hringdi aftur austur um haf eftir samtal við Pútín fyrr í dag.

Selenskí segir að þeir hafi í símtalinu rætt leiðir til að binda enda á árásir Rúss­lands á Úkraínu.

Forsetinn segir Trump hafa upplýst sig stuttlega um samtal sitt við Pútín og segist þakklátur fyrir áhuga Trumps á því mikla sem þeir geti áorkað í sameiningu.

Sameiginlegur styrkur Bandaríkjanna og Úkraínu nægi til að ná fram friði á milli landanna.

Málamiðlanir komi ekki til greina

Að sögn Andrí Jermak, sem fer fyrir skrifstofu Úkraínu­for­seta, lagði Selenskí áherslu á það við Trump að friði skuli ná fram á réttlátan hátt, málamiðlanir komi ekki til greina varðandi sjálfstæði, landhelgi og fullveldi Úkraínu.

Leiðtogarnir sammæltust um að hefja um leið daglega vinnu háttsettra embættismanna frá hvorri hlið, sem muni reyna að ná samkomulagi.

Þá munu Selenskí og fylgdarmenn hans hitta bandaríska embættismenn á öryggisráðstefnu í München á morgun.

Unnið er einnig að persónulegum fundi milli Selenskí og Trump sem að sögn Jermak ætti að eiga sér stað mjög fljótlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert