Þrátt fyrir að norska laxeldisfyrirtækið Mowi hafi lofað 500 króna fundarlaunum, andvirði rúmlega 6.000 íslenskra króna, fyrir hvern lax sem finnendur skila fyrirtækinu eftir að 27.000 eldislaxar sluppu úr kví þess í laxeldisstöðinni Storvika V á Dyrøy í Troms-fylki á sunnudaginn, hafa eingöngu fjórir strokufanganna fundist fram til þessa.
Það var aðfaranótt sunnudags sem laxarnir sluppu úr kvínni gegnum gat á skemmdri eldiskví og hefur sem fyrr segir lítið til þeirra spurst.
„Fyrirtækið hefur hafið leit á leigubátum sem ekki hafa fram til þessa tilkynnt um að áhafnir þeirra hafi fundið nokkuð af laxinum sem strauk. Við höfum verið upplýst um að fjórum löxum hafi verið skilað inn í kjölfar loforðs um fundarlaun,“ skrifar Vegard Oen Hatten, upplýsingafulltrúi norsku fiskistofunnar Fiskeridirektoratet, í svari við fyrirspurn ríkisútvarpsins NRK um málið.
Greinir hann enn fremur frá því að stofnunin muni hefja rannsókn á tildrögum atviksins svo sem lögboðið er. Það sem eftir hafi verið af laxi í löskuðu kvínni hafi verið flutt yfir í aðra kví, eftir því sem Ola Helge Hjetland upplýsingafulltrúi Mowi greinir NRK frá.
Segir hann enn fremur að vonskuveður á svæðinu hafi torveldað leit að þeim tæplega 30.000 löxum sem saknað er.
Hagnaður Mowi á lokafjórðungi næstliðins árs var 2,7 milljarðar króna, jafnvirði tæpra 34 milljarða íslenskra króna, og greindi fyrirtækið frá því í ársskýrslu sinni að afköst þess og tekjur hefðu aldrei náð slíkum hæðum sem í fyrra þegar veltan var 65,3 milljarðar króna, tæpir 820 milljarðar íslenskir, og 502.000 tonnum af laxi var slátrað á vegum þess.