Tólf manns særðust þegar handsprengju var kastað inn á bar í borginni Grenoble í suðurausturhluta Frakklands í gærkvöld.
„Einhver kom inn og kastaði handsprengju, að því er virðist án þess að segja orð, og hljóp svo í burtu,“ sagði Francois Touret-de-Courcy saksóknari.
Hann segir að ekki sé talið að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða en árásarmannsins er enn leitað. Hann er sagður hafa verið verið vopnaður Kalashnikov-riffli en hafi ekki beitt honum.
Franskir fjölmiðlar greina frá því að sex þeirra sem slösuðust séu í lífshættu en sprengjan sprakk klukkan 20 á staðartíma.
Chloe Pantel, aðstoðarborgarstjóri í Grenoble, sagði við AFP-fréttaveituna að heimamenn og fólk utan hverfisins safnist reglulega saman á barnum, sérstaklega til að horfa á fótboltaleiki.