Úkraínumál verði ekki rædd án Úkraínu

Breski varnarmálaráðherrann John Healey (t.h.) tekur í hönd bandaríska starfsbróðurins …
Breski varnarmálaráðherrann John Healey (t.h.) tekur í hönd bandaríska starfsbróðurins Pete Hegseth á NATO-fundinum í Brussel í gær. Healey segir engar viðræður um Úkraínu fara fram án aðkomu Úkraínu. AFP/Johanna Geron

„Engar samningaviðræður um Úkraínu verða haldnar án Úkraínu,“ hefur breska ríkisútvarpið BBC eftir John Healey varnarmálaráðherra sem nú er staddur á fundi varnarmálaráðherra ríkja Atlantshafsbandalagsins NATO í Brussel í Belgíu.

Sagði Healey – og brást þar við bollaleggingum Donalds Trumps um friðarviðræður við Vladimír Pútín Rússlandsforseta vegna Úkraínu – hlutverk NATO vera að koma Úkraínu í bestu mögulegu aðstöðu fyrir hvaða viðræður sem að höndum bæru auk þess sem hann boðaði nýjar fregnir af stuðningi bandalagsins við Úkraínu með milljarða virði af nýjum vopnum fyrir vígstöðvar landsins í væringum þess við Rússa.

„Við viljum sjá varanlegan frið og ekkert afturhvarf til átaka og vígahugar,“ segir ráðherra, „gleymum því ekki að Rússland er áfram ógn langt umfram það sem gerst hefur í Úkraínu.“

Óttist vopnahlé vegna tilslakana

Enn fremur ræðir BBC við Wesley Clark, fyrrverandi hershöfðingja og yfirmann herafla NATO í Evrópu, sem finnur það lítilvægt að ná Pútín að samningaborðinu þar sem forsetinn vilji engum sinna markmiða fórna til að friður komist á – varanlegur friður sé það sem máli skipti.

Bendir hann á að úkraínsk stjórnvöld óttist nú að vopnahlé í Úkraínu geti létt viðskiptahömlum alþjóðasamfélagsins af Rússum og gefið þeim þar með færi á að byggja upp og ná vopnum sínum á nýjan leik.

Clark segir Úkraínumenn hafa varist Rússum vel, stuðningur við þá sé hins vegar ónógur. Evrópuþjóðir hafi útvegað Úkraínu meiri birgðir vopna og skotfæra en Bandaríkjamenn – hvorki hafi Evrópa né Bandaríkin þó staðið að fullu við heiti sín gagnvart þjóðinni stríðshrjáðu.

BBC

Sky News

AP

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert