Að minnsta kosti fimmtán manns létust í troðningi sem myndaðist á járnbrautarstöð í Nýju Delí í Indlandi fyrr í kvöld. Á meðal hinna látnu eru þrjú börn og tíu konur.
Breska ríkisútvarpið greinir frá.
Mikill mannfjöldi hafði myndast á járnbrautastöðinni þar sem margir voru að leggja leið sína á trúarsamkomuna Kumbh Mela sem er ein stærsta trúarhátíð heims og einn af heilögustu dögum hindúa.
Að sögn yfirvalda hefur nú náðst stjórn á ástandinu.
Forsætisráðherra Indlands, Narendra Modi, hefur tjáð sig um troðninginn á miðlinum X og segir huga sinn vera með öllum þeim sem misstu ástvini.
Í viðtali við breska ríkisútvarpið segir einn sjónarvottur að mannfjöldinn hafi verið svo mikill að ekki var hægt að komast inn á stöðina.
Annar segir lögreglu hafa verið að sinna starfi sínu en að mannfjöldinn hafi einfaldlega orðið of mikill.
Aðeins eru rúmar tvær vikur síðan tugir létust í troðningi á Kumbh Mela en hátíðin stendur yfir í sex vikur.
Distressed by the stampede at New Delhi Railway Station. My thoughts are with all those who have lost their loved ones. I pray that the injured have a speedy recovery. The authorities are assisting all those who have been affected by this stampede.
— Narendra Modi (@narendramodi) February 15, 2025