Bandaríkin og Ísrael eru með „sameiginlegt plan“ fyrir framtíð Gasastrandarinnar að sögn forsætisráðherra Ísraels, sem hét því í dag að „hlið heljar yrði opnað“ ef Hamas-samtökin skiluðu ekki öllum gíslum úr haldi sínu.
Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er nú í Ísrael þar sem hann ræðir við Benjamín Netanjahú forsætisráðherra landsins. Rubio er í sinni fyrstu opinberu heimsókn til Mið-Austurlanda sem utanríkisráðherra.
„Hamas má ekki halda áfram sem hernaðarafl eða ríkisstjórnarafl [...] Það þarf að taka þá úr leik,“ sagði Rubio en þeir Netanjahú fluttu hvort sitt ávarpið eftir fund sinn í dag.
Í gær frelsaði Hamas þrjá gísla úr haldi sínu gegn frelsun 369 palestínskra fanga úr ísraelskum fangelsum. Eru þetta sjöttu fangaskiptin af þessu tagi samkvæmt vopnahléssamningi Hamas og Ísraels.
Hamas-liðar og Ísraelsmenn hafa sakað hvor aðra um brot á vopnahléssamþykktinni. Á morgun fundar þjóðaröryggisráð Ísraels um næsta kafla samkomulagsins.
Netanjahú hét því í ávarpi sínu í dag að „hlið heljar yrði opnað“ ef Hamas-samtökin skiluðu ekki öllum gíslunum. Þar virðist heyrast bergmál af ummælum Donalds Trumps sem sagði fyrr í vikunni að „allt færi til helvítis“ ef gíslunum yrði ekki sleppt á laugardag.
Trump hefur auk þess lagt til að Ísrael gefi Bandaríkjamönnum Gasaströndina og að finna þurfi nýtt heimili fyrir íbúa á Gasa í Jórdaníu og Egyptalandi.
Tillögurnar hafa sætt þungri gagnrýni frá alþjóðasamfélaginu, einnig frá Íslandi þar sem Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra lýsti í gær „algjörri andstöðu“ við þvingaða brottflutninga af Gasa.
Ísraelsmenn taka þó vel í tillögurnar.
„Við ræddum djarfa sýn Trumps fyrir framtíð Gasastrandarinnar og við munum vinna til að sjá til þess að sú sýn verði að veruleika,“ sagði Netanjahú í dag.
Fram að þessu höfðu Bandaríkjamenn sagst opnir fyrir öðrum tillögum en Rubio sagði í dag að „eina planið væri plan Trumps“.