Robert Francis Kennedy, yngri, sem tók við embætti heilbrigðisráðherra í ríkisstjórn Donalds Trumps fyrir helgina er umdeildur maður, ekki bara úti í samfélaginu, heldur ekki síður innan eigin fjölskyldu sem kalla má hið ókrýnda kóngafólk Bandaríkjanna.
Tilnefning hans í embættið var gagnrýnd, meðal annars af náfrænku hans, Caroline Kennedy, dóttur Johns F. Kennedys, fyrrverandi forseta og bróður Roberts F. Kennedys, eldri. Hún vandaði frænda sínum ekki kveðjurnar áður en sérstök þingnefnd tók tilnefningu hans til umfjöllunar og sagði hann með öllu vanhæfan, ekki síst vegna afstöðu hans til bólusetningar.
Áður hafði Robert yngri boðið sig fram til forseta og mætti þá harðri andstöðu úr eigin frændgarði. Fjögur systkini hans komu meðal annarra að eftirfarandi yfirlýsingu af þessu tilefni: „Bobby deilir nafninu með föður okkar en hann stendur ekki fyrir sömu gildi, sýn eða dómgreind. Tilkynningin í dag vekur með okkur djúpa hryggð. Við fordæmum framboð hans og teljum það landi okkar skaðlegt.“
Stuð í fjölskylduboðunum þarna.
Robert Francis yngri, fæddur 1954, er menntaður lögfræðingur og vann fyrir saksóknaraembættið í New York þangað til hann var handtekinn árið 1983 með heróín í fórum sínum. Hann játaði sekt sína. Partur af refsingunni var samfélagsvinna og við það vaknaði áhugi Roberts á umhverfisvernd og starfaði hann lengi eftir það sem lögfræðingur á þeim vettvangi.
Undanfarna tvo áratugi hefur Robert verið áberandi í umræðunni um heilbrigðismál, ekki síst bólusetningar, sem hann geldur varhug við. Hann hefur líka komist í fréttirnar vegna furðulegra mála, eins og þegar hann hélt því fram að maðkur hefði étið hluta af heila hans og þegar hann kom bjarnarhræi fyrir í Miðgarði í New York. Björninn átti að hafa orðið fyrir bíl sem ók á undan bíl Roberts og var skilinn eftir á vettvangi. Þá var á sínum tíma rannsakað hvort hann hefði skorið hausinn af dauðum hval, eins og dóttir hans hefur haldið fram.
Nánar er fjallað er um Robert yngri og systkini hans í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins en Robert F. Kennedy, eldri, og eiginkona hans, Ethel, fædd Skakel, eignuðust 11 börn, hvorki meira né minna. Það elsta fæddist 1951 og það yngsta 1968, hálfu ári eftir að faðir þess hafði verið myrtur.