Ströndum lokað vegna tjörubolta: Gæslan engu nær

Strandhelgisgæslan komst engu nær um uppruna tjöruboltanna yfir helgina.
Strandhelgisgæslan komst engu nær um uppruna tjöruboltanna yfir helgina. AFP

Bandaríska strandgæslan hóf leit um helgina að svokölluðum tjöruboltum sem hafa borist að landi á ströndum í Suður-Flórída. Hvaðan tjöruboltarnir eru að koma liggur ekki fyrir.

Sumum ströndum í Suður-Flórída var lokað í gær vegna tjöruboltanna en hafa nú opnað á ný.

AP-fréttaveitan greinir frá.

Flestir á stærð við mynt

Haf- og loftslagsstofnun Bandaríkjanna, National Oceanic and Atmospheric Administration (NOAA), lýsir tjöruboltum sem litlum bitum af olíu sem geta fest sig við fætur strandargesta.

Þeir myndist og verist oft að þegar olía lekur í sjóinn en geti þó einnig myndast út frá jarðolíu sem er að finna undir hafsbotni.

Í yfirlýsingu frá bandarísku strandgæslunni segir að tjöruboltar geti orðið eins stórir og pönnukökur en flestir séu þó á stærð við mynt.

Þá eru þeir mjög viðvarandi í sjávarumhverfinu og geta ferðast fleiri hundruð kílómetra.

Tjöruboltar eru ekki taldir skaðlegir komist þeir í snertingu við fólk í stuttan tíma en geta þó valdið útbrotum eða ofnæmisviðbrögðum fyrir þá sem eru sérlega viðkvæmir fyrir efnum.

Strandgæslan engu nær

Yfir helgina hóf landhelgisgæslan leit að tjöruboltunum og uppruna þeirra en komst engu nær. Talið er að þeir muni brotna niður og hverfa með náttúrulegum hætti.

Hefur Strandgæslan nú hætt leit en mun halda áfram að vinna með yfirvöldum strandanna ef frekari áhyggjur vakna.

Rannsakaði gæslan hvort tjöruboltarnir kæmu frá Everglades-höfninni í Fort Lauderdale, en þar má gjarnan finna stór olíuskip sem sigla til og frá höfninni, en var ekkert sem gaf til kynna að tjöruboltarnir kæmu þaðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert