Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, hefur lýst því yfir að hann sé tilbúinn að senda breska hermenn til Úkraínu til að fylgja eftir hvers konar samkomulagi um frið.
Hann greinir frá þessu í sérstakri grein sem hann ritar í dagblaðið Telegraph og birtist þar nú í kvöld.
Tekur Starmer fram að hann hafi ekki tekið þá ákvörðun af léttúð, að mögulega stefna lífi og limum breskra hermanna í hættu.
Þetta er í fyrsta skipti sem Starmer hefur sagt það berum orðum að slík ráðstöfun sé til skoðunar.
Varpar hann þessu fram kvöldið fyrir fund valinna leiðtoga Evrópu í París á morgun, mánudag.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti boðaði til fundarins eftir að ljóst varð að leiðtogum Evrópuríkja yrði ekki boðið til viðræðna Bandaríkjamanna og Rússa um frið eftir innrásarstríð þeirrar síðarnefndu í Úkraínu.
Ríkisstjórn Donalds Trumps hefur enn fremur gefið það til kynna að dregið verði úr stuðningi við öryggi Evrópuríkja.
Búist er við að þetta útspil Starmers setji frekari þrýsting á önnur ríki álfunnar, ekki síst Þýskaland, um að styðja opinberlega hugmyndir um evrópskt friðargæslulið í Úkraínu.
Í grein sinni segir Starmer jafnframt að Bretland geti leikið einstakt hlutverk til að brúa Evrópu og Bandaríkin þegar kemur að friði í Úkraínu.