Rússar og Bandaríkjamenn funda strax

Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sést hér taka í hönd á …
Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sést hér taka í hönd á sádiarabíska ráðherranum Abdulmajeed al-Smari við komuna til Riyadh í dag. AFP

Háttsettir embættismenn frá Rússlandi og Bandaríkjunum munu eiga viðræður í Sádi-Arabíu í dag til að ræða bætt samskipti þjóðanna, mögulegt vopnahlé í Úkraínu og leiðtogafund þar sem þeir Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Donald Trump Bandaríkjaforseti munu hittast.

Rússneskir og bandarískir embættismenn hafa átt í samskiptum vegna stríðsins í Úkraínu eftir að Trump hringdi í þá Pútín og Volodimír Selenskí Úkraínuforseta í liðinni viku. Þar þrýsti Trump á leiðtogana að stöðva stríðið.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, og Júrí Usjakov, sem er háttsettur ráðgjafi Pútíns, munu fljúga til Riyadh í dag að sögn Dimitrís Peskovs, talsmanns rússneskra stjórnvalda.

Hann sagði að meginþungi viðræðnanna myndi fara í að ræða bætt tengsl Rússlands og Bandaríkjanna.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, mætir á fundinn fyrir hönd rússneskra …
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, mætir á fundinn fyrir hönd rússneskra stjórnvalda. AFP

Vilja ræða öryggismál á breiðum vettvangi

Rússar hafa sagt að þeir vilji ræða öryggismál á mjög breiðum vettvangi fremur en að ræða mögulegt vopnahlé í Úkraínu.

Þá höfðu Rússar gagnrýnt harðlega veru hersveita á vegum NATO í Mið- og Austur-Evrópu auk þess sem þeir höfðu óskað eftir að herliðin yrðu dregin til baka frá nokkrum ríkjum í Austur-Evrópu áður en þeir réðust inn í Úkraínu í febrúar 2022.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert