Áttatíu manns voru um borð í farþegaþotu á vegum Delta Airlines sem brotlenti og hafnaði á hvolfi á Perason-flugvellinum í Toronto í dag.
76 þeirra voru farþegar og fjórir voru í áhöfninni.
CNN greinir frá því að enginn hafi látið lífið í slysinu.
Að minnsta kosti 15 manns, þar af eitt barn, eru slasaðir eftir brotlendinguna. Tveir eru alvarlega slasaðir. Þeir eru komnir undir læknishendur en hvorugur er talinn vera í lífshættu.
Ekki er vitað hvers vegna vélin snerist á hvolf við lendingu en Samgöngustofan í Kanada mun fara með rannsókn málsins og hefur sent hóp á vettvang til að skoða aðstæður.