Átján slasaðir eftir að þotan hafnaði á hvolfi

Átján eru slasaðir eftir að farþegaþota hafnaði á hvolfi við brotlendingu á Pe­ar­son-flug­vell­in­um í Toronto í Kan­ada.

76 farþegar voru um borð og fjórir í áhöfn vélarinnar.

Engar skýringar hafa verið veittar á orsökum slyssins, eða hvernig flugvélin endaði á að snúast þannig að vængir hennar brotna en Samgönguöryggisnefnd Kanada sendi rannsakendateymi á vettvang slyssins.

Ekki varð banaslys.
Ekki varð banaslys. AFP/Geoff Robins

Flugbrautin þurr og engin hliðarvindur

Mikill snjóstormur og kuldatíð skall á Kanada á sunnudag og bættu flugfélög mörg við ferðum á mánudag til að bæta upp fyrir tafir helgarinnar.

„Þetta er svo nýskeð. Það er mikilvægt að við getum okkur ekki til um orsökina. Það sem við getum sagt er að flugbrautin var þurr og engin hliðarvindur,“ sagði Todd Aitken, slökkviliðsstjóri flugvallarins.

Aitken staðfesti að 18 manns hefðu slasast og þar á meðal væru barn, karl á sextugsaldri og kona á fertugsaldri alvarlega slösuð. Þá sagði hann að banaslys hefði ekki orðið.

Hinir slösuðu voru fluttir á sjúkrahús á svæðinu með sjúkrabíl eða þyrlu, að sögn Lawrence Saindon sjúkraflutningamanns.

Öll flugumferð á vellinum var stöðvuð eftir slysið og þegar starfsemi hófst á ný meira en tveimur klukkustundum síðar var farþegum sagt að gera ráð fyrir miklum töfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert