Íslenskur læknir situr uppi með tvær eiginkonur

Málið hefur vakið mikla athygli í Skotlandi og hafa fregnir …
Málið hefur vakið mikla athygli í Skotlandi og hafa fregnir af því einnig verið teknar upp á miðlum á Stóra-Bretlandi.

Íslenskur læknir búsettur í Skotlandi, Bjarni Eyvindsson, er í heldur óvenjulegri stöðu gagnvart laganna armi sökum þess að dómstóll hefur ákvarðað að lögskilnaður mannsins hafi ekki gengið í gegn árið 2021.

Það sem flækir málið talsvert er sú staðreynd að Bjarni kvæntist að nýju árið 2023 og eins og sakir standa á hann því tvær eiginkonur, í skilningi laganna í það minnsta.

Dómstóll í Skotlandi hefur gefið Bjarna fjóra mánuði til að útkljá málið sem snýr að fjárhagsdeilum á milli hans og Lindu Hafþórsdóttur, fyrrverandi eiginkonu hans.

Málið hefur vakið athygli og hafa fjölmargir breskir miðlar fjallað um það, sem sagt er fordæmisgefandi. Meðal annars MirrorEdinburgh Live og Times.

Eiga fjögur börn 

Fram kemur í umfjöllun Daily Record að Bjarni sé nú starfandi á heilsugæslustöð í Glasgow en hafi áður starfað í knattspyrnuheiminum og verið liðslæknir hjá liðum á borð við Stirling Albion, Edinburgh City og Hiberninan.

Bjarni segir í samtali við The Mirror að hann sé í snúinni stöðu og viti ekkert hvernig hann eigi að taka á málinu.

Í umfjöllun Vísis segir að fyrrverandi eiginkona hans sé íslensk kona að nafni Linda Hafþórsdóttir og að saman eigi þau fjögur börn.

Þá segir að samkvæmt dómsgögnum komi fram að Bjarni og Linda eigi fjögur börn og að þau hafi gengið í hjónaband árið 1998. Þau skildu að borði og sæng árið 2018.

Ómeðvituð um lífeyri

Í umfjöllun Edinburgh Live segir að Linda sé búsett í Edinborg og að hún hafi ekki samþykkt lögskilnaðinn árið 2021 vegna óuppgerðra fjárhagsmála. Engu að síður hafði dómari upphaflega lagt blessun sína yfir skilnaðinn. Nú hefur dómstóll hins vegar snúið þeirri ákvörðun við.

Þá segir að Bjarni hafi staðið í þeirri meiningu að hann og Linda hafi gert upp sín mál og því hafi það komið flatt upp á hann þegar Linda ákvað að láta á málin reyna fyrir dómstólum.

Í niðurstöðu dómsins segir að Linda hafi á sínum tíma ekki verið meðvituð um þann veglega lífeyri sem Bjarni hafi í sínu nafni og því hafi skilmálar skilnaðar verið henni í óhag.

Haft er eftir lögmanni að verði málin ekki leyst innan fjögurra mánaða muni seinna hjónaband Bjarna verða gert ógilt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert