Of margir drukkið „Trump-eitrið“

Ritstjóri eins elsta kristindómsdagblaðs Noregs varar villuráfandi þjóð við og …
Ritstjóri eins elsta kristindómsdagblaðs Noregs varar villuráfandi þjóð við og segir hana hafa drukkið eitur Trumps. Hér sést hann taka í hönd prestsins er annaðist guðsþjónustu fyrir embættistöku forsetans 20. janúar. AFP/Scott Olson

„Vaknið! Snúið við áður en það er um seinan,“ segir Vebjørn Selbekk, ritstjóri kristilega dagblaðsins Dagen í Noregi, eins elsta kristilega dagblaðs þar í landi, í viðtali við öllu veraldlegra blað, VG, en viðtalið hefur vakið gríðarlega athygli í Noregi. Selbekk les löndum sínum þar pistilinn og segir þá treysta boðskap Donalds Trumps Bandaríkjaforseta eins og nýju neti.

„Það hryggir mig og ögrar mér hve margir hafa kokgleypt agnið, öngulinn og sökkuna frá Donald Trump,“ segir ritstjórinn við VG og bætir því við að vandi sé að spá fyrir um hvar rússíbanareið heimsbyggðarinnar með forsetanum muni enda.

„Hann er algjörlega óútreiknanlegur og fjöldi kristinna manna fagnar honum sem einhvers konar bjargvætti [...] Of margir kristnir menn bergja af eiturbikar hans. Snúið við áður en það er um seinan,“ heldur ritstjórinn áfram og fer víða í viðtalinu, „frá Hitler til helvítis og til Donalds Trumps,“ skrifar viðtalshöfundur í inngangi sínum.

„Úr djúpi Kristna-Noregs...“

Ritstjóri Dagen virðist raunar hafa nokkuð til síns máls. Í könnun dagblaðs hans fyrir kosningarnar í Bandaríkjunum í nóvember reyndist helmingur áskrifenda þess styðja Trump í forsetastólinn. Með þá tölfræði að vopni bendir Selbekk á að sagan geymi fjölda dæma um að kristnir láti hina sterku manngerð leiðtogans hlaupa með sig í gönur. Nefnir ritstjórinn sinn eigin afa sem dæmi, en sá átti þátt í þjóðarmorði á austurvígstöðvunum á tímum seinna stríðs

Viðbrögðin við málflutningi Selbekks eru vægast sagt blendin. Yfirlýsingar hans til eigin lesenda um „blindni“ þeirra og „villu vegar“ hafa vakið hörð viðbrögð, eftir því sem norska ríkisútvarpið NRK segir frá í umfjöllun sinni um viðtalið við VG.

„Úr djúpi Kristna-Noregs benda fleiri á að það sé einmitt Selbekk sem hafi farið villu síns vegar og látið blekkjast – ekki af Trump hins vegar, heldur af guðlausri frjálshyggju. Aðrir benda á að „af ávöxtunum skulið þér þekkja þá“ og að trúarlíf Trumps – eða skorturinn á því – komi málinu ekkert við. Vísa þeir til þess að Kyros Persakonungur hafi ekki verið réttrar trúar, engu að síður hafi það verið hann sem frelsaði gyðingana í Babýlon árið 538 fyrir Krist,“ skrifar NRK um það umtal sem Selbekk hefur vakið með predikun sinni.

Guð virkur í stjórnmálum á ný

Þegar litið sé til ársins 2025 komi í ljós að Trump verji ófætt líf með kjafti og klóm auk þess að færa rök fyrir rétti Ísraels til að verja hendur sínar. Auk þess hafi forsetinn boðað stofnun „Trúarskrifstofu Hvíta hússins“ (e. White House Faith Office) í því augnamiði að „berjast gegn andkristnum fordómum“.

„Guð er orðinn virkur í stjórnmálum á ný,“ skrifar dálkahöfundur Morgenbladet, Ingeborg Misje Bergem. „Skyndilega drífur fólk að. Kristindómurinn er risinn upp frá dauðum, en það er ekki vegna þess að hann sé orðinn svo opinn og inngildandi. Þetta er ástæðan fyrir ímyndarnauðinni [n. identitetskrise] í Kristna-Noregi.“

Harald Hegstad, formaður kirkjuráðs norsku þjóðkirkjunnar, segir í samtali við NRK að í kirkjunni skuli vera rými fyrir fjölbreytileika og ólíkar stjórnmálaskoðanir. „En við eigum að mótmæla þegar grunngildum okkar er ógnað,“ segir hann, aukin athygli í garð kristinnar trúar skýrist af því að fólk leiti skjóls á óvissutímum – ekki að það snúist til öfgahyggju.

Hefur NRK eftir Selbekk ritstjóra í dag, tveimur dögum eftir að VG birti viðtalið við hann, að viðbrögðin séu þau sem vænta mátti. „Ég hef verið dæmdur trúlaus, siðlaus og fullkomlega án allra vitsmuna. En ég hef líka fengið þriggja stafa tölu af þökkum fyrir að segja hlutina skýrt,“ segir ritstjórinn um storminn í kjölfar viðtalsins, sem enn hefur ekki lægt í umræðum innan „Kristna-Noregs“.

VG

NRK

NRK-II (þess vegna finnst ungum kristnum Norðmönnum Trump „kúl)

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert