Pútín segist reiðubúinn að ræða við Selenskí

Þau skilaboð berast frá rússneskum stjórnvöldum að Vladimír Pútín Rússlandsforseti sé reiðubúinn að ræða við Volodimír Selenskí, forseta Úkraínu, „ef þörf krefur“.

Við sama tilefni er þó lögmæti Selenskís í embætti dregið í efa af Rússlandsforsetanum. Hluti af orðræðu Rússa hefur snúist um að Selenskí sé ekki réttmætur leiðtogi Úkraínu.

„Pútín er sjálfur reiðubúinn að ganga til samningaviðræðna við Selenskí ef þörf krefur. Hins vegar þarf að ræða lögmæti slíkra viðræðna í ljósi þess að vafi leikur á lögmæti Selenskís í embætti,“ er haft eftir Dmitry Peskov í samtali við fjölmiðlamenn.

Volodimír Selenskí og Vladimír Pútín.
Volodimír Selenskí og Vladimír Pútín. AFP

Pútín hefur áður sagt að hann sé reiðubúinn í friðarviðræður en að þær geti farið fram án aðkomu Selenskís.

Selenskí hefur látið hafa eftir sér að ekki komi til greina að semja um frið fyrr en Rússar hafa yfirgefið þau landsvæði sem þeir hafa sölsað undir sig í Úkraínu. Það eru um 20% af öllu landsvæði landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert