Segir Bandaríkin skilja Rússa betur

Frá fundi ríkjanna í dag.
Frá fundi ríkjanna í dag. AFP/SPA

Bandaríkjamenn eru sagðir skilja hlið Rússa betur eftir fund ríkjanna tveggja í Sádí-Arabíu í dag. Ríkin hafa lýst sig reiðubúin til frekari samvinnu í tengslum við innrásarstríð Rússa í Úkraínu.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, ræddi við fjölmiðla að fundi loknum í dag og sagði hann fundinn hafa verið fyrsta formlega fund ríkjanna tveggja eftir að innrásin hófst í febrúar árið 2022. 

„Við hlustuðum ekki bara hvert á annað heldur skildum við hvert annað. Ég hef ekki neina ástæðu til að halda annað nema að Bandaríkjamenn skilji afstöðu okkar nú betur,“ sagði Lavrov. 

Marco Rubio og Sergei Lavrov takast í hendur að fundi …
Marco Rubio og Sergei Lavrov takast í hendur að fundi loknum. AFP/SPA

Andvígir evrópskum her

Lýsti Lavrov á fundinum því að Rússar væru andvígir því að ríki Atlantshafsbandalagsins sendu inn herlið til Úkraínu í tengslum við mögulegt vopnahlé, hvort sem það væri undir formerkjum Evrópusambandsins eða ekki. 

Um liðna helgi kallaði Volodimír Selenskí Úkraínuforseti eftir því að stofnaður yrði evrópskur her þar sem Úkraína gæti ekki lengur treyst á stuðning Bandaríkjanna í baráttu sinni við Rússland. 

Sagði Lavrov einnig að Bandaríkin hefðu lýst áhuga á að aflétta refsiaðgerðum gegn Rússum en mörg ríki beittu Rússa viðskiptaþvingunum eftir að innrásin í Úkraínu hófst og í kjölfarið dróst hagkerfi Rússa saman.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert